Innlent

Erfitt að reka líkamsræktarstöð í miðbænum

UE skrifar
Baðhúsið flytur úr Brautarholti í Smáralindina um áramótin. Þegar Baðhúsið flytur verður engin líkamsræktarstöð eftir í miðbænum. Fréttastofa Vísis hringdi í Lindu Pétursdóttur, eiganda Baðhússins, og spurði hana hverja hún teldi vera ástæðuna fyrir því að engin líkamsræktarstöð væri í miðbænum.

Hún segir aðalástæðuna vera að aðkoman að líkamsræktarstöð í miðbænum sé erfið. „Bílastæðapláss skipta gríðarlega miklu máli í kringum þessa starfsemi,“ er mat Lindu og þau eru ekki á hverju strái í miðbænum.

„Miðkjarni höfuðborgarsvæðisins hefur færst undanfarin ár,“ að sögn Lindu Pétursdóttur. Hún segir að kjarninn sé núna nær Smáralindinni en miðbænum. Skilyrðin fyrir rekstri líkamsræktarstöðvar séu auk þess betri í Smáralindinni en í miðbæ Reykjavíkur.

Linda skoðaði miðbæinn þegar hún var að leita að húsnæði fyrir líkamsræktarstöð en fann ekkert heppilegt húsnæði. Líkamsræktarstöðvar þurfa mikið pláss, og húseiningar í miðbænum eru almennt litlar.

Linda segir að það sé óhagkvæmt að reka litla líkamsræktarstöð. Starfsemi Baðhússins fer fram í um 1800 fermetra húsnæði.

Þegar Linda er spurð hvort íbúar í miðbænum stundi einfaldlega minni líkamsrækt en aðrir segist hún ekki telja að það sé ástæðan. Það taki ekki nema tíu mínútur að keyra á milli bæjarhluta, og fólk velji ekki endilega þá líkamsræktarstöð sem er næst heimili þeirra, heldur þá sem því hugnast best. Viðskiptavinir Baðhússins búa til dæmis víðsvegar um höfuðborgarsvæðið.

Þetta setur hinsvegar strik í reikninginn fyrir miðbæjarbúa sem eiga ekki bíl. Þeir geta þó sótt ýmis námskeið í Kramhúsinu og synt í Sundhöllinni.



Hönnunarsamkeppni um stækkun Sundhallarinnar gerir ekki ráð fyrir líkamsræktarstöð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×