Sport

Laufey í 3. sæti á heimsleikum líffæraþega

Kristján Hjálmarsson skrifar
Laufey Rut Ármannsdóttir náði í morgun 3. sæti í sínum flokki í 5 kílómetra hlaupi heimsleikum líffæraþega sem fram fara í Durban í Suður Afríku. Þetta er frábær árangur hjá Laufeyju Rut en þetta er í fyrsta skipti sem hún tekur þátt í leikunum.

Laufey Rut er ekki eini Íslendingurinn sem keppir á heimsleikum líffæraþega því Kjartan Birgisson hjartaþegi og Björn Magnússon nýrnaþegi eru meðal keppenda.

"Þetta er frábær árangur hjá henni," sagði Kjartan í samtali við Vísi í morgun. Heitt var í veðri þegar hlaupið fór fram sem gerði íslensku keppendunum erfitt fyrir.

"Veturinn hérna er betri en sumrin heima," segir Kjartan sem tók sjálfur þátt í fimm kílómetra hlaupinu og hafnaði í fjórtánda sæti í sínum flokki. "Ég er alsæll með að hafa klárað," sagði hann.

Kjartan og Björn keppa í liðakeppni í golfi á morgun, á miðvikudag er keppt í badminton, einstaklingskeppni í golfi á fimmtudaginn og svo eru sprettir á föstudag. Kjartan og Laufey verða einnig meðal keppenda í spretthlaupunum.

Þremenningarnar voru í viðtali við Ísland í dag fyrir skömmu. Viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×