Innlent

Jóhannes Gunnarsson: Skilið neytendum því sem þeim ber að fá

VG skrifar
Jóhannes Gunnarsson er formaður Neytendasamtakanna.
Jóhannes Gunnarsson er formaður Neytendasamtakanna.

„Það er greinilegt að núna eru einhverjir að taka til sín fjármuni aukalega í skjóli styrkinga krónunnar, og það er óþolandi,“ segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, en í morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að innlendar matvörur hækkuðu í maí en innfluttar vörur lækkuðu lítillega á móti. Þetta hefur gerst þrátt fyrir töluverða styrkingu krónunnar frá því í febrúar.

Innfluttar mat- og drykkjarvörur lækkuðu um 0,5% í maímánuði, en í þeim lið hefur styrking krónunnar frá febrúarmánuði enn ekki skilað sér að fullu. Ýmsar innlendar matvörur hækkuðu svo verulega í verði í maímánuði. Má þar nefna að fiskur hækkaði um 1,7% í verði, kjöt um 1,1%, egg um 1,5%, ostar um 0,9% og smjör um 1,3%.

Í heild hækkuðu búvörur án grænmetis um 0,8% í maí, og hafa þær frá áramótum hækkað um 2,8%. Erfitt er að átta sig á hvað skýrir þessa hækkun, sér í lagi þegar haft er í huga að innflutt aðföng í landbúnaði ættu að hafa lækkað í verði samfara styrkingu krónu.

Á heildina litið hefur matvara hækkað í verði um 2,9% það sem af er ári, og skýtur það skökku við í ljósi styrkingar krónu og almennrar lækkunar á verði landbúnaðarvara erlendis.

Jóhannes segir að ekki sé ljóst hversvegna styrking krónunnar skilar sér ekki í lægra verði. Hvort það sé birgjum, heildsölum eða öðrum að kenna. „Og það kallar á að enn ein vísitalan verði mæld, það er vísitala heildsöluverðs,“ segir Jóhannes, en að hans mati gæti það orðið mun betri leið til þess að fylgjast með þróun verðhækkana og lækkana.

Jóhannes bendir á að þegar krónan fellur skili það sér mjög fljótt í vöruverð. „En að sjálfsögðu eiga menn að vera sjálfir sér samkvæmir og breyta verðinu fljótt þegar króna hreyfist aftur upp,“ segir Jóhannes. Hann segir kröfu Neytendasamtakanna skýra:

„Skilið neytendum því sem neytendum ber að fá, nú þegar.“


Tengdar fréttir

Innlendar matvörur hækkuðu verulega í maí án ástæðu

Innlendar matvörur hækkuðu verulega í maí en innfluttar lækkuðu lítillega á móti. Ekki er hægt að sjá augljósar skýringar á því að innlend matvæli hækka. Hvað þær innfluttu varðar er enn langt í að lækkun þeirra sé í samræmi við styrkingu krónunnar frá áramótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×