Innlent

"Tvískinnungur hjá stjórnvöldum varðandi áfengisauglýsingar"

Auglýsingar frá ÁTVR eru að engu leyti öðruvísi en þær sem menn hafa verið dæmdir fyrir hérlendis, segir hæstaréttarlögmaður. Hann segir afstöðu íslenskra stjórnvalda til áfengisauglýsinga lýsa stórmerkilegum tvískinnungi.

Fyrsta setningin í áfengislögunum er skýr en þar segir, Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Margir hafa látið reyna á lögin og sumir fengið refsingu fyrir. Nýverið birti Vínbúðin auglýsingu þar sem fram kemur að breytt og bætt vínbúð við Stekkjarbakka hafi verið opnuð á ný. Greina má einstaka áfengistegundir í bakgrunni.

Hæstarréttarlögmaðurinn, Haukur Birgisson telur að þessi auglýsing, sem og reyndar allar aðrar frá Vínbúðinni sé ekki í anda laganna.

"Sjálfur er ég reyndar þeirrar skoðunar að það eigi að leyfa auglýsingar á löglegum vörum. En punkturinn er hinsvegar þessi. Það er enginn annar tilgangur með auglýsingu frá Áfengis og tóbaksverslun Ríkisins en að fá fólk til að kaupa áfengi. Og það finnst íslenska ríkinu í lagi en á sama tíma ákveður það að refsa einstaklingum auglýsingar af sama tagi. Það gengur auðvitað ekki og þetta er ekkert annað en tvískinnungur," segir Haukur.

"En þegar verið er að auglýsa opnunartíma eða nýjar búðir, sleppur það ekki?"

"Það má deila um það. Lögin kveða á um það að ekki megi auglýsa áfengi í neinni form eða mynd. Hvað eru auglýsingar frá verslun sem selur eingöngu áfengi annað en auglýsing til að hvetja fólk til að kaupa áfengi?"

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR
Þessu er Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR algjörlega ósammála.

"Við teljum engan veginn að hægt sé að túlka það að þegar verið er að opna vínbúð eftir breytingar eftir að hafa verið lokað í tæpar þrjár vikur að það sé hægt að segja að það sé áfengisauglýsing. Þessi Vínbúð hefur verið þarna í mörg ár og er búin að vera lokuð í tæpar þrjár vikur og við viljum bara segja frá því að hún sé opnuð aftur," segir Sigrún.

"Og þar af leiðandi fá viðskiptavini eða hvað?"

"Auðvitað bjóðum við bara viðskiptavini velkomna. Það er ekki okkar hagur að viðskiptavinir komi að lokuðum dyrum," segir Sigrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×