Innlent

Tvær Twitter síður undir merkjum Alþingis

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Alþingi er með tvær Twitter síður.
Alþingi er með tvær Twitter síður.
Alþingi virðist halda úti tveimur Twitter síðum og á þeim eru um eitt þúsund fylgjendur samtals. Þegar síðurnar eru skoðaðar sést að önnur er fyrir þingsjköl en hin fyrir upplýsingar um þingfundi.

Þingmenn Bjartar framtíðar hafa lagt fram þingsályktun fyrir Alþingi þess efnis Alþingi verði sýnilegra á samfélagsmiðlum. Í greinargerðinni segir að mikið hafi verið rætt um ásýnd og virðingu Alþingis á undanförnum misserum og traust landsmanna til stofnunarinnar hafi aldrei mælst minna.

Í greinargerðinni kemur hvergi fram að Alþingi hafi nú þegar byrjað að nýta sér Twitter til þess að bregðast við nýjum samskiptaleiðum.

Þar segir jafnframt að Íslendingar séu í hópi netvæddustu þjóða heims og um 95 prósent landsmanna séu tengd netinu á einn eða annan hátt. Auk þess séu Íslendingar meðal þeirra þjóða sem iðnastir séu við að nýta sér samfélagsmiðla og ýmsir þeirra hafi náð útbreiðslu hér á landi, svo sem Facebook, YouTube, Google+, Flickr og Twitter.

Þingmenn Bjartar framtíðar vekja athygli á því að nokkur ráðuneyti séu orðin sýnileg á samfélagsmiðlum og taka dæmi þar sem notkun samfélagsmiðla hafi bætt ímynd og ásýnd opinberra stofnana. Þeir nefna lögregluna á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega.

Í greinargerðinni segir einnig: „Það er margt sem mælir með því að Alþingi skoði möguleika á að nota samfélagsmiðla til samskipta og upplýsingamiðlunar. Með notkun samfélagsmiðla er hægt að stuðla að jákvæðri ímynd.“

„Mikilvægt er að Alþingi hafi rödd og sé sýnilegt þar sem fólkið í landinu er á hverjum tíma og þýðingarmikið er að stofnun eins og Alþingi leggi áherslu á að vera lifandi, lagi sig að breyttum aðstæðum og sé hluti af samfélaginu. Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að auka sýnileika Alþingis út á við, bæta upplýsingaflæði til borgaranna og þannig stuðla að bættri ímynd þingsins,“ segir í greinargerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×