Fótbolti

Stelpurnar okkar standa í stað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Margrét Lára og félagar stóðu sig vel á EM í Svíþjóð.
Margrét Lára og félagar stóðu sig vel á EM í Svíþjóð. Mynd/Ernir
Afar litlar breytingar urðu á stöðu landsliða á styrkleikalista FIFA sem birtur var í morgun.

Íslenska kvennalandsliðið situr í 15. sæti listans líkt og það gerði fyrir Evrópumótið. England hrapar um fjögur sæti eftir slakan árangur í Svíþjóð en aðrar þátttökuþjóðir á mótinu hreyfast í mesta lagi upp eða niður um eitt sæti á listanum.

Engin hreyfing er á meðal efstu þjóða og nýkrýndir Evrópumeistarar Þjóðverja tapa raunar stigum og ná því ekki að minnka bilið í Bandaríkin sem sitja á toppi listans.

Styrkleikalisti kvennalandsliða hjá FIFA er öðruvísi uppbyggður en hjá körlunum. Kvennalistinn byggir á úrslitum sem ná aftur til ársins 1971 þótt nýleg úrslit vegi hærra en eldri. Hjá körlunum er aðeins miðað við fjögur ár aftur í tímann og sömuleiðis vega nýleg úrslit meira en eldri.

Bandaríkin og Þýskaland eru einu þjóðirnar sem hafa nokkru sinni setið í efsta sæti listans. Listinn er aðeins birtur fjórum sinnum á ári á meðan listi karlanna er uppfærður á 1-2 mánaða fresti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×