Innlent

Átta fluttir á heilsugæsluna eftir árekstur

Mikil umferð ferðamanna er á landinu öllu þessa dagana.
Mikil umferð ferðamanna er á landinu öllu þessa dagana.
Harður árekstur varð á Skeiðavegi á móts við Skálholtsveg um klukkan níu á föstudagskvöld samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi. Tvö ökutæki voru í samfloti en ökumaður fremri bifreiðarinnar ætlaði að beygja til vinstri og dró úr hraða og stöðvaði með þeim afleiðingum að bifreiðin sem var á eftir skall harkalega aftaná henni.  

Átta manns voru flutt á heilsugæsluna á Selfossi til skoðunar og þrír þaðan áfram á Slysadeild Landspítala í Fossvogi. Enginn reyndist alvarlega slasaður. Báðar bifreiðarnar voru fjarlægðar af vettvangi með kranbíl. Rigning og slæmt skyggni var þegar óhappið varð. Loka þurfti Skeiðavegi í rúma klukkustund þegar óhappið átti sér stað á föstudaginn.

Síðdegis á miðvikudag í síðustu viku valt bifreið útaf Þrengslavegi í Skógarhlíðarbrekku.  Ökumaður slasaðist ekki en er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna.

Á þriðjudagsmorgun varð svo harður árekstur á Langholti á Selfossi. Þar lentu tvær bifreiðar framan á hvor annari.  Talið er að annar ökumaðurinn, sem var einn í bifreið sinni, hafi sofnað og farið yfir á rangan vegarhelming.  Í hinni bifreiðinni var einn farþegi með ökumanni.  Fólkið var flutt á heilsugæslu þar sem læknir kannaði meiðsli sem reyndust minni háttar.  Báðar bifreiðarnar voru óökufærar eftir áreksturinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×