Fótbolti

Skytturnar þrjár komnar með ellefu mörk saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Mynd/NordicPhotos/Getty
Kolbeinn Sigþórsson, Alfreð Finnbogason og Aron Jóhannsson voru allir á skotskónum um helgina og það stefnir í mikið markastríð á milli íslensku framherjanna í hollensku deildinni ef heldur áfram sem horfir. Kolbeinn og Aron fögnuðu einnig þremur stigum í húsi með liðum sínum Ajax og AZ Alkmaar en Alfreð og félagar í Heerenveen töpuðu sínum fyrsta leik í vetur.

Alfreð og Aron hafa báðir skorað í öllum leikjum tímabilsins til þessa en Alfreð er nú markahæsti leikmaður hollensku deildarinnar með fjögur mörk í þremur umferðum.

Aron hefur skorað eitt mark í öllum þremur leikjum AZ Alkmaar og hann skoraði einnig eitt mark í Meistarakeppninni og er því kominn með fjögur mörk í fjórum leikjum. Missir íslenska landsliðsins er því augljóslega mikill.

Kolbeinn afgreiddi Feyenoord með tveimur mörkum í gær en þetta voru fyrstu deildarmörk hans á tímabilinu. Kolbeinn skoraði aftur á móti eitt mark í Meistarakeppninni og hefur því skorað þrjú mörk í fjórum leikjum á tímabilinu. Kolbeinn missti af fimm mánuðum af síðasta tímabili vegna meiðsla en skoraði sex mörk í síðustu níu leikjunum á tímabilinu og minnti síðan verulega á sig í gær.

Kolbeinn hefur verið óheppinn með meiðsli fyrstu tímabilin sín með Ajax en hefur þegar fagnað tveimur meistaratitlum. Mörkin hans í gær þýða að hann hefur nú skorað fleiri deildarmörk fyrir Ajax (16) en hann gerði á sínum tíma fyrir AZ Alkmaar (15).

Alfreð Finnbogason bætti markamet Péturs Péturssonar í hollensku úrvalsdeildinni í fyrra þegar hann skoraði 24 mörk í 31 leik fyrir Heerenveen.

Aron Jóhannsson lýsti því yfir fyrir tímabilið að hann ætlaði að taka metið af Alfreð og miðað við þessa byrjun er honum greinilega full alvara. Á sama tíma er Alfreð að sýna okkur að hann ætlar að gera betur en í fyrra.

Íslensku leikmennirnir hafa nú gert níu deildarmörk í fyrstu þremur umferðunum. Það eru rúmar 30 umferðir eftir með vonandi nóg af íslenskum mörkum. Íslensku mörkin urðu alls 38 talsins í hollensku deildinni á síðasta tímabili (Alfreð 24, Kolbeinn 7, Aron 3, Jóhann Berg 2 og Guðlaugur Victor 2) og gætu orðið mun fleiri á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×