Innlent

Viðvörun vegna vatnavár

VG skrifar
Frá flóðum í Auðholtshverfi síðasta vetur.
Frá flóðum í Auðholtshverfi síðasta vetur. Mynd / GVA

Við hlýindin undanfarna daga hefur snjó tekið upp á norðan- og austanverðu landinu ásamt Vestfjörðum og hluta af Suðurlandi samkvæmt viðvörun frá Veðurstofu Íslands. Síðastliðinn vetur var sá snjóþyngsti síðan 1995 með snjókomu fram undir lok maí.

Í upphafi þessarar viku hlýnaði snögglega á Norður- og Austurlandi, eftir langvarandi kuldatíð, svo flóð komu í árnar við snjóbráðnun. Upp úr miðnætti í dag fór rennslið í Skjálfandafjóti í 680 m3/s við Aldeyjarfoss.

Þetta er stærsta vorflóð í Skjálfandafljóti síðan 1995. Til samanburðar er meðalársrennsli Skjálfandafljóts 50 m3/s.

Næstu daga er spáð 15 til 20 stiga hita yfir daginn á nær öllu Norðurlandi svo búast má við áframhaldandi vatnavöxtum vegna snjóbráðnunar. Á sama tíma er varað við hættu á skriðuföllum og krapaflóðum þar sem snjór bráðnar hratt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×