Komið var með fyrstu langreyðina sem veiðst hefur í hátt í þrjú ár að bryggju í hvalstöðinni í Hvalfirði síðdegis. Nokkrir mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan á meðan.
Hvalveiðiskipin Hvalur 8 og 9 héldu út til veiða á sunnudagskvöldið. Í gær veiddi skutu svo skipverjar um borð í Hval 8 fyrstu langreyði sumarsins. Komið var með hana í hvalstöðina í Hvalfirði síðdegis. Þar beið hópur manna sem tók til við að flensa langreyðina. Hvalstöðin iðaði af lífi í allan dag en fjöldi fólks undirbjó komu skipsins.
Hátt í þrjú ár eru síðan að að hvalskipin héldu síðast til veiða en sumarið 2010 voru veidd hátt í 150 langreyðar.
Hvalveiðitímabilinu lauk 24. september 2010 en það ár voru veidd 148 dýr.
Árið áður undirritaði Einar K. Guðfinnsson, þáverandi landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra, umdeilda reglugerð sem heimilaði veiðar á hrefnum og langreiðum næstu fimm árin.
Sumarið 2011 var ákveðið að gera hlé á veiðunum þar sem það var metið sem svo að ekki væri markaður fyrir kjötið í Japan þangað sem kjötið er selt.
Veiðarnar hafa vakið hörð viðbrögð meðal dýraverndunarsinna og deilt hefur verið um arðsemi þeirra. Einn hluthafanna skrifaði grein í Fréttablaðið þar sem forstjórinn var hvattur til að hætta veiðunum þar sem þær skili engu nema kostnaði.
