Innlent

Skilaréttartími alltof knappur

Jakob Bjarnar skrifar
Kristín Einarsdóttir. Nú er sá tími ársins sem flestir vilja skila vöru en það getur reynst hægara sagt en gert.
Kristín Einarsdóttir. Nú er sá tími ársins sem flestir vilja skila vöru en það getur reynst hægara sagt en gert.
Margur fékk of þrönga flík í jólagjöf eða bara eitthvað sem þann langar ekkert í. Og þá er að skipta. Neytendasamtökin segja að skilaréttur sé í mörgum tilfellum alltof knappur tími og gengur á ýmsu.

Nú er sá tími eftir mesta verslunartíma ársins. Kristín Einarsdóttir starfar hjá Neytendasamtökunum en þau eru nú að vinna úr ýmsum erindum sem snúa að skilarétti.

„Í flestum tilfellum er skilafrestur til 31. Desember og í jafnvel skemur. Við teljum það ansi knappt,“ segir Kristín. „En, seljendur ráða því sjálfir hvaða skilarétt þeir hafa. Það eru ekki til lög um skilarétt.“

Langflestar verslanir skipta þó vörum eða gefa út inneignarnótur en mjög sjaldgæft er að hægt sé að fara fram á endurgreiðslu. Reglur um skilarétt eru ekki skýrar af hálfu verslana, það er upp og ofan hvaða hátt verslunareigendur hafi á því en til eru leiðbeinandi reglur sem margar verslanir fara reyndar eftir. Útsölur sem hefjast strax að lokinni jólaverslun eru svo til að flækja málin.

„Já, það flækir ansi mikið málið. Þess vegna finnst okkur þessi tími, þessi skilaréttartími, svo knappur. Við myndum vilja sjá það þannig að skilaréttur væri einhver x-tími og útsölur myndu ekki hefjast fyrr en að þeim tíma loknum.“

Og, það eru einmitt helst mál af þessum toga sem eru helst nú á borði Kristínar.

„Sumir hafa endurgreitt, ekkert margar verslanir sem gera það reyndar. Fólki finnst að það ætti að geta fengið vöruna jafnvel endurgreidda. Við erum að fá talsvert um það að útsölur séu hafnar. Og viðkomandi er að skila vörunni og seljandinn vill eingöngu gefa innleggsnótu fyrir útsöluverðinu,“ segir Kristín Einarsdóttir hjá Neytendasamtökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×