Innlent

Omega 3 fitusýrur sagðar auka líkur á krabbameini

Jakob Bjarnar skrifar
Makríllinn er fituríkur fiskur og fæðubótaefni sem innihalda Omega-3 eru algeng.
Makríllinn er fituríkur fiskur og fæðubótaefni sem innihalda Omega-3 eru algeng.
Hópur bandarískra vísindamanna segir að krabbamein í blöðruhálskirtli sé algengara hjá karlmönnum sem neyta matar sem ríkur er af Omega-3 fitusýrum.

Sky-sjónvarpsstöðin greinir frá þessu í morgun. Niðurstöður umræddrar rannsóknar eru þær að neyti menn fituríks fisks eða taki inn fæðubótaefni sem inniheldur Omega-3 fitursýrur tvöfaldast hætta á krabbameini. Á þetta einkum við um blöðruhálskirtil.

Tölurnar sem nefndar eru í könnuninni eru sláandi. Fram kemur að með inntöku Omega-3 aukist líkurnar á illkynja krabbameini um 71 prósent en góðkynja um 44 prósent. Samtals aukast líkur á blöðruhálskrabbameini við inntöku Omega 3 um 43 prósent. Teymi bandarískra vísindamanna bar saman blóðsýni 834 manna með blöðruhálskrabbamein við sýni úr 1,393 þátttakendum rannsóknarinnar sem eru lausir við sjúkdóminn. Hátt hlutfall Omega 3 fitusýra fannst í þeim sem voru með krabbamein.

Dr. Sigmundur Guðbjarnason hefur ekki haft tök á að kynna sér frumgögn rannsóknarinnar.
Dr. Sigmundur Guðjarnason, fyrrverandi Háskólarektor, segir þetta nýja umræðu. Hann hefur ekki haft tök á að kynna sér frumgögn rannsóknarinnar. "Neinei, en ég mun reyna að kynna mér frumgögnin og sjá hvernig þetta er unnið og hvernig þessar ályktanir eru dregnar. Því það koma nú oft í fjölmiðlum svona fullyrðingar sem stundum eru byggðar á misskilningi. Nú, stundum eru náttúrlega áhugaverðar nýjungar en það verður að skoða heimildarnar."

Sigmundur stýrði um árabil rannsóknum við raunvísindasvið Háskóla Íslands, einmitt á Omega-3 fitusýrum. "Við höfum rannsakað þetta rækilega á raunvísindastofnun, en það hefur einkum og sér í lagi verið um áhrif Omega fitusýra á hjartað og æðakerfið. Þær rannsóknir hafa skilað mjög jákvæðum niðurstöðum: Þetta hefur mjög gott á hjartað og dregur úr líkum á skyndidauða."

Dr. Alan Kristal kynnti niðurstöður rannsóknarinnar.
Einn skýrsluhöfunda, Dr. Alan Kristal, sagði í samtali við Sky News að þeir hefðu verið að leita sérstaklega eftir vísbendingum um orsakavalda krabbameins í blóði og komust að því, sér til undrunar, að sammerkt var í sýnum sjúklinga hátt hlutfall Omega-3. Að sögn Dr. Kristal eru þeir sem neyta daglega Omega-3 í mesta áhættuhópnum. Vísindamennirnir kynntu niðurstöður sínar í vefriti the Journal of the National Cancer Institute í gær. Þá er tekið fram að nauðsynlegt sé að rannsaka nánar Omega-3 sem krabbameinsvaldandi efnis.

Næringarfræingurinn Nicoel Berberian var jafnframt í viðtali við Sky News og hún dregur niðurstöður rannsóknarinnar í efa. Segir að ekki sé hægt að fullyrða um orsökina þó fylgni í blóðsýnum sé þessi; ekki hafi verið sýnt fram á að Omega-3 valdi krabbameini. Rannsóknin gefur þannig ekki tilefni til að fara af taugum. Omega-3 hefur verið með vinsælli fæðubótarefnum og hefur verið talið hafa margvísleg áhrif til góðs á heilsu manna: Koma í veg fyrir hjartaáföll, hafi góð áhrif á heila manna og hugsun og hafi jafnvel jákvæð áhrif á hegðunarvanda barna.

Árlega greinast 41 þúsund karlmenn á Bretlandseyjum með blöðruhálskrabbamein og 11 þúsundir deyja af völdum sjúkdómsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×