Innlent

Meira brottfall og fleiri þunganir hér

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
Mjög fáir íslenskir unglingar undir sextán ára reykja eða drekka.
Mjög fáir íslenskir unglingar undir sextán ára reykja eða drekka. Nordicphotos/Getty
Samfélagsmál Fleiri unglingsstúlkur verða þungaðar hér á landi en í flestum öðrum Vestur-Evrópuríkjum. Aðeins verða fleiri stúlkur þungaðar í Bretlandi og á Írlandi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, um velferð barna í efnameiri ríkjum heimsins. Skýrslan verður kynnt í dag.

Einnig kemur fram í skýrslunni að hlutfallslega færri ungmenni á aldrinum 15 til 19 ára stunda nám á framhaldsskólastigi hér á landi en í nágrannaríkjunum. Um 85 prósent ungmenna eru í framhaldsskóla hér á landi en flest ungmenni eru í framhaldsmenntun í Belgíu, um 94 prósent.

Bergsteinn Jónsson, verkefnastjóri hjá UNICEF á Íslandi, segir bæði þunganirnar og brottfallið dæmi um það sem skoða þurfi betur hér á landi.

Þegar litið er á heildina er Ísland í þriðja sæti yfir þau lönd sem best standa sig í að tryggja velferð barna. Holland er í fyrsta sæti og Noregur í öðru sæti.

Íslensk börn eru þau næstánægðustu með líf sitt. Tvö prósent þeirra líða skort þegar kemur að efnislegum þáttum eins og sérherbergi, tölvueign á heimili og ferðalögum, en 6,5 prósent teljast hlutfallslega fátæk. Börn sem lenda undir fátæktarmörkum hér á landi virðast lenda lengra undir mörkunum en í flestum nágrannaríkjum okkar. UNICEF telur að það þurfi einnig að rannsaka nánar.

„Skýrslan sýnir að drykkja unglinga og reykingar eru mun minni hér á landi en annars staðar og mikill árangur hefur náðst á þessum sviðum,“ segir Bergsteinn. Í þeim 29 ríkjum sem tóku þátt í rannsókninni höfðu fæst börn, frá 11 til 16 ára, reykt á Íslandi, um þrjú prósent, og um sex prósent þeirra höfðu orðið drukkin. Aðeins í Bandaríkjunum drukku færri börn. Hins vegar höfðu um sjö prósent íslenskra barna neytt kannabisefna.

„Segja má að skýrslan sýni hversu mikilvægt það er að fylgjast grannt með velferð barna. Börn eru viðkvæmasti þjóðfélagshópurinn,“ segir Bergsteinn. Velferð allra barna sé fjárfesting til framtíðar sem samfélagið hafi ekki efni á að vanrækja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×