Enski boltinn

Tevez-málinu loks að ljúka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
West Ham var í eigu Íslendinga þegar Carlos Tevez var fenginn til liðsins. Hér er Eggert Magnússon með honum.
West Ham var í eigu Íslendinga þegar Carlos Tevez var fenginn til liðsins. Hér er Eggert Magnússon með honum. Nordic Photos / Getty Images
West Ham mun í sumar klára síðustu greiðslurnar vegna Tevez-málsins svokallaða sem skók félagið árið 2007. Félagið var þá sektað fyrir að hafa samið við leikmann sem var í eigu þriðja aðila en slíkt er ólöglegt á Englandi.

Engu að síður fékk Tevez að klára tímabilið með West Ham sem bjargaði sér frá falli með sigri í síðustu umferðinni. Tevez skoraði sigurmarkið í þeim leik.

Sheffield United féll þess í stað og við það sætti liðið sig ekki. Þeir sóttu málið stíft og því lauk með því að West Ham samþykkti að greiða félaginu 18,1 milljón punda, um 3,6 milljarða króna.

Enskir fjölmiðlar greindu frá því í vikunni að West Ham myndi í sumar inna af hendi síðasta hluta greiðslunnar, um sex milljónir punda. Greiðslan kemur United vel en félagið, sem leikur nú í ensku C-deildinni, hefur átt í miklum fjárhagsvandræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×