Enski boltinn

Henry: Erfitt að hlusta á gagnrýnina á Wenger

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thierry Henry og Arsene Wenger þegar Henry kom fyrst til Arsenal árið 1999.
Thierry Henry og Arsene Wenger þegar Henry kom fyrst til Arsenal árið 1999. Mynd/Nordic Photos/Getty
Thierry Henry þykir afar leiðinlegt að hlusta á þá hörðu gagnrýni sem Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur orðið fyrir en Arsenal hefur ekki unnið titil undir stjórn Wenger í að verða átta ár.

Wenger er á sínu sautjánda ári með Arsenal en liðið varð síðast enskur meistari vorið 2004 þegar Thierry Henry var markahæstur í deildinni með 30 mörk.

„Þegar þú ert ekki að vinna þá mun fólk alltaf setja spurningamerki við það sem þú ert að gera sem og við það sem þú hefur gert áður. Það er sorglegt en svona eru bara hlutirnir og hvað er svo sem hægt að gera við því," sagði Thierry Henry við Reuters.

„Það er samt erfitt fyrir mig að hlusta og horfa á þetta því fyrir mér mun stjórinn alltaf vera Arsene. Hann reyndist mér frábærlega og ég veit vel hvað hann hefur gert fyrir félagið," sagði Henry.

„Menn eru metnir af því hvað þeir eru að gera þessa stundina eða hvernig gekk í síðustu leikjum en það er erfitt að gagnrýna Wenger eftir allt sem hann hefur gert fyrir Arsenal. Hann hefur breytt klúbbnum og hvernig fótbolta liðið spilar. En þegar þú ert ekki að vinna þá mun fólk alltaf búa til vandamál," sagði Henry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×