Innlent

Myndband frá brunanum í Árósum

Gunnar Reynir Valþórsson og Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Betur fór en á horfðist í morgun þegar þeir Gunnar Þór Nilsen og Friðrik Elís Ásmundsson björguðu rúmenskri fjölskyldu út úr brennandi íbúð í Árósum.

Mennirnir gerðu slökkviliði viðvart og hlupu að íbúðinni eftir að þeir sáu að kviknað hafði í gardínu. Einn íbúinn hafði þá komið sér út á einskonar þak yfir verönd, og sagði Gunnar í samtali við Vísi í morgun að eldtungurnar hafi hreinlega sleikt hann. Maðurinn sagði þeim að fleiri væru í íbúðinni og fóru Gunnar og Friðrik þá inn í íbúðina þar sem þeir mættu konu með lítið barn í örmunum.

„Við tókum fólkið yfir í íbúðina til okkar og gáfum þeim föt og svona, því slökkviliðið var ekkert komið,“ segir Gunnar en í íbúðinni voru tveir karlmenn, ein kona og litla barnið.

Þeir Friðrik og Gunnar fóru síðan aftur yfir að blokkinni og aðstoðuðu íbúa í nærliggjandi íbúðum við að komast út, en eldurinn náði ekki að læsa sig í hinar íbúðirnar, þótt um töluverðar reykskemmdir sé að ræða.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá frá slökkvistarfi.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Gunnar Þór hefur bjargað mannslífum. Nánar verður fjallað um björgunarafrek hans í fréttum Stöðvar 2 í opinni dagskrá kl. 18.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×