Innlent

Vilja betra net á Héraði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Heimamenn vilja að fjarskiptasamband á Hallormsstað verði eins gott og í þéttbýli.
Heimamenn vilja að fjarskiptasamband á Hallormsstað verði eins gott og í þéttbýli.
Netsamband í dreifbýli á Fljótsdalshérað er bæði lélegt og sveiflukennt að því er segir í kvörtun eins íbúans til bæjarráðs sem tekur undir með íbúanum.

Bæjarráð kveðst telja að við fyrsta tækifæri þurfi að gera verulegt átak til að bæta net- og fjarskiptasamband víða í dreifðum byggðum Fljótsdalshéraðs. Það eigi við um þéttbýlið á Hallormsstað, Brúarási og Eiðum og einnig á einstökum sveitabæjum á Fljótsdalshéraði.

Vísar bæjarráðið til bréfs Símans um að búnaður á Hallormsstað verði ekki uppfærður í ár. Í því sé heldur ekki minnst á aðra hluta dreifbýlisins.

„Bæjarráð beinir því til Símans að í framkvæmdaáætlun vegna ársins 2014, verði símstöðin á Hallormsstað uppfærð þannig að notendur þar njóti sambærilegra gæða í net- og sjónvarpsþjónustu og íbúar í þéttbýlinu á Fljótsdalshéraði,“ segir bæjaráðið sem vill líka að skoðaðar verði ýmsar aðrar símstöðvar. „Einnig verði sérstaklega hugað að þeim svæðum í dreifbýli Fljótsdalshéraðs, þar sem netsambandi með stuðningi Fjarskiptasjóðs var ekki komið á, eða fengu ekki ásættanlega úrlausn mála í því átaki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×