Innlent

Óvenjumikill munur á veðri í suðri og norðri

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Veitingahúsaeigendur í Reykjavík bregðast við rigningunni með nýstárlegum lausnum á sama tíma og Akureyringar hafa sjaldan upplifað svo sólríkt sumar. Íbúar á Ísafirði fögnuðu sól gærdagsins en segja ferðamenn þó ekki láta leiðindaveður stöðva sig. Sumarveðrið hefur verið með ólíkasta móti á hverju landshorni fyrir sig.
Veitingahúsaeigendur í Reykjavík bregðast við rigningunni með nýstárlegum lausnum á sama tíma og Akureyringar hafa sjaldan upplifað svo sólríkt sumar. Íbúar á Ísafirði fögnuðu sól gærdagsins en segja ferðamenn þó ekki láta leiðindaveður stöðva sig. Sumarveðrið hefur verið með ólíkasta móti á hverju landshorni fyrir sig.
„Það er hitaskúr hjá okkur í dag, eða útlandarigning eins og við köllum það,“ segir Þórhildur Gísladóttir, starfsmaður Akureyrarstofu. Veðrið hefur leikið við íbúa Akureyrar í sumar, meðalhitinn í júní mældist 11,4 stig og hefur ekki mælst svo hár í 60 ár.

Þar að auki hefur verið óvenju sólríkt í bænum, 84 sólskinstundum yfir meðaltali fyrri ára. Þórhildur segir að mikið líf sé í bænum. Hún segist taka eftir því að bæði ferðamenn og Íslendingar styðjist mikið við veðurspána við ferðaundirbúning. „Við eigum bara von á því að allir komi hingað í sumarfrí,“ segir hún og hlær.

Erla Sighvatsdóttir, íbúi á Ísafirði og starfsmaður í upplýsingamiðstöð Vestfjarða, var einnig glaðbeitt þegar Fréttablaðið náði af henni tali. „Það er sól í dag. Það hefur góð áhrif á stemninguna í bænum,“ segir hún en fullyrðir að ef fólk ætli sér að koma í bæinn þá láti það ekki slæmt veður stöðva sig. „Ef veðrið er leiðinlegt þá er hægt að fara á söfn,“ tekur hún sem dæmi. „En auðvitað sjást fleiri á ferli í góðu veðri.“

Í Reykjavík var úrkoma í júní 30 prósentum yfir meðallagi auk þess sem óvenju sólarlítið var í mánuðinum eða 90 stundum undir meðaltali júnímánaða síðustu tíu ára. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa því lítið séð til sólar í sumar og búist er við því að veður verði með sama hætti eitthvað fram í júlí.

„Salan er mikið minni en hún er vön að vera á þessum árstíma,“ segir Guðný Atladóttir, framkvæmdastjóri Kaffi París við Austurstræti. „Fólk vill geta setið úti og Íslendingarnir, sem eru vanir að birtast um leið og sólin, hafa aðeins náð nokkrum dögum hjá okkur.“

Hún segist þó ekki af baki dottin. „Við erum að skapa kósí rigningarstemningu. Við keyptum sólhlífar svo að fólk gæti setið úti, erum með teppi og kertaljós.“ Aldrei áður hefur verið þörf á því að notast við hlífar í tuttugu ára sögu veitingastaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×