Innlent

Flestir telja að Ólafur Ragnar skrifi undir

Jakob Bjarnar skrifar
Veðmálastuðlar benda til þess að fleiri geri ráð fyrir að Ólafur Ragnar skrifi undir lög ríkisstjórnarinnar og vísi þeim ekki til þjóðarinnar.
Veðmálastuðlar benda til þess að fleiri geri ráð fyrir að Ólafur Ragnar skrifi undir lög ríkisstjórnarinnar og vísi þeim ekki til þjóðarinnar.
Vel yfir hundrað manns hafa nú tekið þátt í veðmálinu sem Betsson efnir til um hvaða ákvörðun forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, tekur og tilkynnir væntanlega á eftir um á blaðamannafundi klukkan 16:15.

Ef litið er til þess hvernig menn veðja gera veðmálaglaðir frekar ráð fyrir því að Ólafur Ragnar kvitti undir lög sjávarútvegsráðherra og gefi þannig lítið fyrir það að um gjá sé milli þings og þjóðar - þrátt fyrir nýlega skoðanakönnun sem sýnir 70 prósent landsmanna mótfallna lögum sjávarútvegsráðherra, sem miða að lækkun veiðileyfagjalda og svo undirskriftir í þá átt frá rúmlega 35 þúsund einstaklingum. Þegar þetta er skrifað er stuðullinn fyrir Já 2,50 en Nei 1,45. Þannig að góður meirihluti telur að Ólafur Ragnar Grímsson skrifi undir og láti vera að vísa málinu til þjóðarinnar.

Í raun má halda því fram að menn geri þannig síður ráð fyrir því að Ólafur Ragnar verði samkvæmur sjálfum sér. Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands hefur lýst því í samtali við Bylgjuna að miðað við orð forsetans og gjörðir ætti það að benda eindregið til þess að hann muni synja frumvarpinu staðfestingar og vísa þar með í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á móti kemur að Ólafur Ragnar Grímsson virðist velviljaður hinni nýju ríkisstjórn og vilji því ekki reynast henni Þrándur í Götu í einu af fyrstu stóru málum hennar. Að sögn Gunnars Helga er forsetinn mjög snjall í að rökstyðja ákvarðanir sínar - eftir á.

Umþóttunartími Ólafs Ragnars er ákaflega stuttur því samkvæmt upplýsingum frá Alþingi eru lögin nýlega komin í hendur hans úr prentsmiðju. Þegar hann synjaði lögum um Icesave staðfestingar tók hann sér rúma viku undir feldi. Ósagt verður látið hvort þessi stutti tími gefur vísbendingar um hver ákvörðun forsetans verður en niðurstaðan mun liggja fyrir seinnipart dags, á blaðamannafundi forsetans á Bessastöðum.

Vísir verður með beina útsendingu frá fundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×