Innlent

Bíða eftir mati á yfirtöku þjónustu við fatlaða

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sjálfstæðismenn vilja fjölbreytt rekstrarform í heilsugæslu.
Sjálfstæðismenn vilja fjölbreytt rekstrarform í heilsugæslu. Fréttablaðið/Stefán
Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar í borgarstjórn ásamt borgarfulltrúa VG vísaði á þriðjudag frá tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokks um að óska eftir viðræðum við ríkið um framtíðarfyrirkomulag heilsugæslunnar í Reykjavík.

Í tillögunni var gert ráð fyrir áherslu á fjölbreytni í rekstrarformum og að tryggja greiðan aðgang almennings að heimilislækningum.

Meirihluti borgarfulltrúa sagði að samþykkt hafi verið 2010 að ræða við ríkisvaldið um yfirtöku á heilsugæslunni. Nú sé beðið mats á því hvernig til hafi tekist við yfirtöku á þjónustu við fatlaða.

"Við hörmum að borgarfulltrúar Samfylkingar, Besta flokksins og Vinstri grænna skuli vísa frá tillögu um að óskað verði eftir formlegum viðræðum við ríkisvaldið um framtíðarfyrirkomulag heilsugæslunnar í Reykjavík með það að markmiði að þjónustan verði endurskipulögð í þágu notenda og að aðgangur að heimilislækningum sé tryggður. Þær viðræður við ríkisvaldið, sem fóru fram í framhaldi af samþykkt borgarstjórnar 21. september 2010, fóru út um þúfur og því er eðlilegt að borgarstjórn óski að nýju eftir viðræðum nú þegar ný ríkisstjórn er komin til valda," bókuðu sjálfstæðismenn.

Að sögn sjálfstæðismanna lýsir það "miklu metnaðarleysi að borgarstjórnarmeirihlutinn kjósi að fresta slíkum viðræðum þar til ljóst verður hvernig yfirstandandi mati lyktar vegna annars máls, það er yfirfærslu málefna fatlaðra. En miðað við núverandi stöðu liggur niðurstaða þess mats í fyrsta lagi fyrir vorið 2014. Slík frestun er ekki í neinu samræmi við þann vanda sem við er að etja í málefnum heilsugæslunnar."

Borgarfulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna minntu á að borgarstjórn hefði samþykkti haustið 2010 að fara í viðræður við ríkisvaldið um yfirtöku á heilsugæslunni.

"Fulltrúar Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lýsa yfir vilja sínum til að vera áfram í viðræðum við ríkisvaldið um yfirtökuna, þó ekki fyrr en niðurstöður liggja fyrir í mati á því hvernig til hefur tekist við yfirtöku á þjónustu við fatlaða íbúa bæði hvað varðar þjónustu og fjármögnun. Niðurstöður eiga að liggja fyrir á vormánuðum 2014," sagði í bókun fulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×