Innlent

Hæfa fólkið fær ekki vinnu nema það fari í stjórnmálaflokk

Boði Logason skrifar
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. Mynd/stefán
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir að búa verði til ábyrgðarkeðju í samfélaginu sem sé þannig að þeir sem valda samfélagslegu tjóni axli ábyrgð. Það sé ekki gott samfélag að þeir sem valda mesta tjóninu komist alltaf upp með það, og fái jafnvel stöðuhækkanir.

„Ég tek undir með þeim þingmönnum að við eigum ekki að fara í skotgrafir, við verðum líka að búa til þannig ábyrgðarkeðju í samfélagi okkar, sem er þannig að þeir sem að valda svona miklu samfélagslegu tjóni, með annað hvort aðgerðaleysi sínu eða taka að sér stöður sem þeir valda ekki, þeir verða að axla einhverja ábyrgð - þó það sé ekki nema að segja af sér.

Í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við þá sé það þannig.

„Þó þú sért ekki ábyrgur persónulega fyrir stofnun, fyrir eitthvað sem gerst hafði eða starfsmaður þinn gerði, þá segir viðkomandi aðili af sér. Það býr til heilbrigðara samfélag ef það er þannig að fólk sem veldur mestum skaða í samfélagi okkar kemst alltaf upp með það, hvers konar skilaboð erum við að senda öðrum í samfélagi okkar? Þetta er brotið samfélagið sem leyfir að það sé þannig að þeir sem valda mestu tjóni komast allaf upp með það og fá jafnvel stöðuhækkanir. Það er ekki gott samfélag, ekki heilbrigt samfélag.“

Þá sagði hún að kominn væri tími til að hætta að ráða pólitískt í stöður.

„Ég vildi óska þess að við gætum kallað hlutina réttum nöfnum, það er eitt sem við verðum að hætta að gera, er að ráða pólitískt í mikilvægar stöður. Það er spilling. Það heitir ekki neitt annað. En það má ekki kalla það spillingu. Því að hæfa fólkið sem vill vera virkilega góðir embættismennn, það fær aldrei vinnu nema það fari í einhvern flokk. Getum við ekki reynt að breyta þessu? Er ekki kominn tími til að læa af reynslunni.“

Birgitta talaði einnig um leigumarkaðinn, og sagði alltaf væri verið að tala um að hann sé molum. „Afhverju er það þannig að langflestir sem fara út í stærstu fjárfestingar lífsins, sem er þak yfir höfuðið, hafa svona lítil réttindi? Afhverju er það? Þessi skýrsla gefur okkur vísbendingu en ég vil hvetja alla þá nýju þingmenn sem hér eru, og þá sem hafa verið hér lengur, að lesa ótrúlega mögnuðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, hina fyrra. Að samlesa hana með þessu, og síðan þegar við fáum skýrsluna um Sparisjóðina, gefur okkur góða vísbendingu um hvert við eigum að fara og hvað við eigum að gera."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×