Enski boltinn

Gerrard: Þurfum að halda ró okkar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard.
Steven Gerrard. Mynd/Nordic Photos/Getty
Steven Gerrard, fyrirliði enska landsliðsins, hefur kallað eftir ró og yfirvegun hjá sínum leikmönnum í leiknum mikilvæga í Svartfjallalandi á morgun en þjóðirnar mætast þá í toppslag í riðils þeirra í undankeppni HM 2014.

Enska landsliðið er nú tveimur stigum á eftir Svartfjallalandi og á því möguleika á því að ná efsta sætinu með sigri í Podgorica annað kvöld.

Það er enn í fersku minni þegar Wayne Rooney missti stjórn á sér á sama stað þegar Svartfjallaland og England mættust í undankeppni EM 2012 en það varð til þess að hann fékk rauða spjaldið og missti af tveimur fyrstu leikjum enska liðsins á EM síðasta sumar.

„Það er mikil pressa á öllum og við megum ekki gefa dómaranum færi á því að reka einhvern okkar útaf eða að næla okkur í óþörf gul spjöld," sagði Steven Gerrard í viðtali á heimasíðu enska sambandsins.

„Það er mikilvægt að allir taki ábyrgð og haldi sér inn á vellinum. Þeir munu nefnilega beita öllum brögðum til að hafa áhrif á dómarann og fá hann til að lyfta spjöldum," sagði Gerrard.

„Ég er samt viss um að við fáum góðan dómara sem fellur ekki í þessa gildru. Við verðum samt að halda ró okkar og yfirvegun og við erum allir með það á hreinu," sagði Gerrard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×