Innlent

Starfsgreinasambandið krefur ríkisstjórnina um efndir

Heimir Már Pétursson skrifar
Björn Snæbjörnsson var endurkjörinn formaður Starfsgreinasambandsins á þingi sambandsins sem haldið var á Akureyri í dag.
Björn Snæbjörnsson var endurkjörinn formaður Starfsgreinasambandsins á þingi sambandsins sem haldið var á Akureyri í dag. mynd/anton brink
Þing Starfsgreinasambandsins sem lauk á Akureyri í dag leggur áherslu á að í komandi kjarasamningum verði ríkisstjórnin krafin um efndir á fyrirheitum sem gefin voru í kosningabaráttunni sl. vor og bæta eiga hag heimilanna. Vegna óvissu í efnahagsmálum sé ekki ráðlegt að gera nýja kjarasamninga til langs tíma.

Björn Snæbjörnsson var endurkjörinn formaður Starfsgreinasambandsins sem fer með samningsumboð sextán stéttarfélaga.

„Við erum mjög upptekin af því að reyna að hækka persónuafsláttinn. Það er gegnumgangandi hjá okkur. Við erum ekki búin að úttala okkur um kröfurnar en þær snúast um launahækkanir og einhverjar skattabreytingar,“ segir Björn. Skammtímasamningur verði í mesta lagi til tólf mánaða.

Starfsgreinasambandið fordæmi skattabreytingar sem færi tekjuhæstu hópum samfélagsins umtalsverða skattalækkun á meðan skattbyrði láglaunahópa haldist óbreytt og krefjist þess að það svigrúmi sem kunni að vera til skattalækkana verði ráðstafað til þeirra sem minnst hafi milli handanna.

„Það er auðvitað margt í þessu fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram sem við erum ekki sátt við. Það segir í stjórnarsáttmálanum að þeir vilji hafa mikið og náið samstarf við aðila vinnumarkaðarins. En það hefur farið lífið fyrir því samráði, verið lítið um það hingað til. Þannig að við vitum ekki alveg hvað þeir (stjórnarflokkarnir) eru að fara,“ segir Björn.

Í kjaraályktun þingsins segir að Starfsgreinasambandið vili brjóta á bak aftur þá láglaunastefnu sem ríkt hafi hér á landi á undanförnum árum og áratugum. Arðgreiðslur í útflutningsgreinum sýni hversu vel þær séu í stakk búnar til að veita starfsfólki aukna hlutdeild í þeim mikla hagnaði sem þar hafi skapast undanfarin ár.

„Barist verður af alefli fyrir því að lagfæra kjör verkafólks svo um munar í komandi kjarasamningum,“ segir í ályktuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×