Innlent

Pokasjóður gefur LSH brjóstholssjá fyrir 9 milljónir

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Pokasjóður afhendir Landspítala nýja brjóstholssjá.
Pokasjóður afhendir Landspítala nýja brjóstholssjá.
Pokasjóður verslunarinnar afhenti í dag Landspítalanum við Hringbraut brjóstholssjá fyrir skurðstofur. Tækið kostar um 9 milljónir króna og jafnframt er Pokasjóður verslunarinnar búinn að skuldbinda sig til að kaupa lungnatæki fyrir Landspítalann fyrir 25 milljónir króna.



Brjóstholssjáin var fyrsta gjöf Pokasjóðs til 
sjúkrastofnunar í samræmi við breyttar áherslur sjóðsins. Dregið verður tímabundið úr hefðbundnum úthlutunum Pokasjóðs en fjármunir þess í stað lagðir til tækjakaupa fyrir sjúkrastofnanir landsins.
 
Brjóstholssjá (thoracoscope) eins og Landspítalinn fékk afhenta í dag er eitt mest notaða tækið á skurðstofunum. Brjóstholssjáin frá Pokasjóði leysir af hólmi annað af tveimur slíkum tækjum sem komin eru til ára sinna, 10 og 15 ára gömul og standast engan veginn nútímakröfur, samkvæmt upplýsingum frá Pokasjóði.
 
Þessi búnaður er mikið notaður við lungnaskurðaðgerðir, t.d. við að fjarlægja minni æxli og þegar rof verður á lunga, sýnatöku og fleira. Sama búnað má nota til kviðasjáraðgerða, t.d. fjarlægja gallblöðrur, botnlanga osfrv.  Búnaðurinn samanstendur af sérstakri sjá sem er eins konar myndavél, 10 mm breið, ljósgjafa, sjónvarpsskjám með mjög góða upplausn og  loftdælu sem getur blásið upp holrými o.fl.
 
Í tilkynningu frá Pokasjóði kemur fram að nýja brjóstholssjáin komi til með að auka öryggi sjúklinga og gæði skurðaðgerða á Landspítalanum. Hún verði notuð við aðgerðir og rannsóknir á mörg hundruð sjúklingum á ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×