Innlent

IKEA vísitalan lækkar um 9,5%

Hrund Þórsdóttir skrifar
Spenna ríkir á mörgum heimilum þegar hinn árlegi IKEA bæklingur er væntanlegur en til stendur að senda hann á öll heimili landsins nú fyrir helgina. Undanfarin ár hefur fréttastofa Stöðvar 2 birt IKEA vísitöluna á þessum tíma, þar sem vörulistinn markar upphaf nýs rekstrarárs hjá IKEA, nýtt verð tekur gildi og fyrirtækið skuldbindur sig, ólíkt flestum fyrirtækjum, til að halda verðinu óbreyttu í eitt ár.Í ár hafa forsvarsmenn fyrirtækisins lýst því yfir að vöruverð standi í stað að meðaltali á milli ára en að um tólfhundruð vörur hafi lækkað í verði. Ástæðan er í einhverjum tilfellum betra innkaupsverð vegna lækkunar á heimsmarkaðsverði. Þá styrktist krónan nokkuð fyrr á þessu ári og Seðlabankinn lýsti því yfir að hann myndi grípa inn í til að tryggja nokkuð stöðugt gengi.

 Lítum á dæmi um nokkrar vinsælar vörur:

HEMNES bókaskápurinn fer úr 64.950 í 59.950 krónur og hefur því lækkað um tæp 8%. MALM skrifborð lækkar úr 27.950 í 24.950 krónur, eða um tæp 11%. Arild þriggja sæta leðursófinn er á sama verði og í fyrra, á 219.900 krónur. Verð á IKEA Ps skápnum helst einnig óbreytt, 16.950 krónur og sama gildir um hina geysivinsælu Billy bókahillu sem kostar ennþá 8.950 krónur.

Á meðan gengisvísitala krónunnar hefur hækkað um 0,4% undanfarið ár, hefur verð á húsgagnakörfu fréttastofu því lækkað um 9,5%. Þó ber að hafa í huga að þar sem vöruverð stendur í stað að meðaltali á milli ára, hefur verð á einhverjum vörum að sjálfsögðu hækkað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×