Lífið

Litadýrð yfir Jökulsárlóni

Starri Freyr Jónsson skrifar
Flugeldasýning við Jökulsárlón líður fólki seint úr minni.
Flugeldasýning við Jökulsárlón líður fólki seint úr minni. MYND/Þorvarður Árnason
Árleg flugeldasýning Björgunarfélags Hornafjarðar og Ferðaþjónustunnar Jökulsárlóni verður haldin við Jökulsárlón á morgun, laugardag. Þetta er fjórtánda árið í röð sem sýningin er haldin en sú fyrsta var haldin árið 2000.

Friðrik Jónas Friðriksson, formaður Björgunarfélags Hornafjarðar, segir sýninguna vera alla hina glæsilegustu en hún hefur vaxið ár frá ári. „Aðstandendur flugeldasýningarinnar leggja meiri metnað í sýninguna með hverju árinu sem líður. Upphaf hennar má rekja til þess að starfsmenn ferðaþjónustunnar héldu uppskeruhátíð í lok sumars. Síðan þá hefur hún undið upp á sig og í fyrra mættu um 1.500 manns til að horfa á sýninguna.“

Sýningin hefst kl. 23 að sögn Friðriks og stendur í 40-50 mínútur. „Við byrjum á því fyrr um daginn að raða 150 friðarkertum á ísjaka í lóninu. Síðar um kvöldið er kveikt á kertunum og svo hefst flugeldasýningin. Við skjótum bæði tertum og tívolíbombum upp af ísjökum úti í lóninu og förum á milli á gúmmítuðru til að kveikja í. Ef veður og skyggni verður gott á þetta eftir að verða stórkostleg sjón, enda lýsast ísjakarnir upp í ýmsum litum og birtu frá flugeldunum.“

Stór hluti þeirra sem mæta á flugeldasýninguna eru erlendir ferðamenn að sögn Friðriks en sýningin er vel auglýst á svæðinu. „Auðvitað mæta heimamenn líka, þá helst af Suðurlandinu, enda er þetta stórkostleg upplifun fyrir alla gesti, sérstaklega ef veðrið er gott. Þetta óvenjulega umhverfi hér með ísjökunum gerir auðvitað alla upplifun gjörólíka því sem fólk á að venjast frá öðrum flugeldasýningum.“

Aðgangseyrir er 1.000 kr. en frítt er inn fyrir 12 ára og yngri. „Allur ágóði rennur til Björgunarfélags Hornafjarðar en aðgangseyrir er fyrst og fremst hugsaður til að hafa upp í kostnað vegna flugeldakaupa.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.