Innlent

„Misskipting sem ég þoli ekki“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Hátekjufólk ber talsvert meira úr býtum en lágtekjufólk í nýjum kjarasamningi sem undirritaður var milli Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins í gær. Fimm stéttarfélög höfnuðu samningnum. Hagfræðingur segir nýjan kjarasamning geta stuðlað að lækkun vaxta.

Skrifað var undir nýjan kjarasamning í húaskynnum ríkissáttasemjara á tíunda tímanum í gærkvöldi. Eftir langa samningalotu náðu viðsemjendur loks saman. Björgólfur Jóhannsson, formaður SA, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, féllust í faðma þegar samningar höfðu verið undirritaðir.

Helstu niðurstöður kjarasamningsins eru þær að almenn launhækkun er 2,8% og laun þeirra allra launalægstu hækka um 5%. Stefnt er að því að ná auknum stöðugleika og að halda verðbólgu innan markmiða Seðlabanka Íslands. Samningurinn er til eins árs og verður hafist handa við vinnu á langtímasamningi eftir áramót.

Étur verðbólgan upp kaupaukann?

Gylfi vonast til að verðbólga muni ekki éta upp launahækkun sem fylgir nýjum kjarasamningi. „Við auðvitað óttumst það og þess vegna er þetta stuttur samningur, árssamningur. Ef svo fer þá þurfum við að taka á því í næsta samningi. Við stefnum að því að verðbólgan verði í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands eða 2,5%. Það hefur ekki tekist síðastliðin 10 ár. Við höfum svo mikla hagsmuni af því að það takist - það er þess virði að reyna það og við verðum að reyna það.“

Ólafur Ísleifsson hagfræðingur segir að nýr kjarasamningur geti boðað bjartari tíma á Íslandi. „Með þessum kjarasamningi geta skapast forsendur fyrir lækkun vaxta sem ætti að koma öllum vel. Það verða í það minnsta ekki sóttar röksemdir fyrir hækkun stýrivaxta í þennan samning,“ segir Ólafur.

Fimm stéttafélög sögðu nei

Fimm stéttarfélög höfnuðu kjarasamningi í gær. Þau eru Verkalýðsfélag Akraness, Drífandi, stéttafélag í Vestmannaeyjum, Verkalýðsfélagið Framsýn á Húsavík, Báran stéttafélag á Selfossi og Verkalýðsfélag Grindavíkur. Mikil óánægja er meðal þessara félaga með nýjan kjarasamning og segja þau hann auka enn frekar misskiptinguna í þjóðfélaginu.

Tökum dæmi af tveimur einstaklingum:

Jón er með 246 þúsund krónur í laun á mánuði. Laun hans hækka um 8.000 krónur á mánuði fyrir skatta og hækka því um 96 þúsund krónur á ári. Jón fær enga skattalækkun.

Gunnar er hins vegar með milljón á mánuði. Laun hans hækka um 28 þúsund krónur á mánuði og hann fær um 3.500 króna skattalækkun á mánuði. Alls hækka laun Gunnars um 380 þúsund krónur á ári fyrir skatta með nýjum kjarasamningi. Ávinningur Gunnars er fjórfalt meiri en Jóns af nýjum kjarasamningi.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, er mjög ósáttur með nýjan kjarasamning. „Það er misskiptingin í þessu þjóðfélagi sem ég þoli ekki. Ég mun ekki skrifa undir þessa vitleysu.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×