Innlent

Sala á sterku áfengi dregst verulega saman

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Sala á áfengi í vikunni fyrir jól jókst um rúm 5% milli ára. Sala á jólabjór hefur aldrei verið meiri. Nokkuð dregur úr kaupum landsmanna á sterku áfengi en verð hefur hækkað um 40% frá hruni.

Meiri sala er á áfengi í vikunni fyrir jól en á sama tíma á síðasta ári. Frá 17. til 24. desember seldust um 716 þúsund lítrar af áfengi en 680 þúsund á sama tímabili í fyrra. Aukningin er því 5,3% á milli ára. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir sölu á jólabjór hafa aukist á milli ára. „Það er meiri sala í ár, 8,7% meiri sala frá því að við byrjuðum að selja 15. nóvember en á síðasta ári. Það var meiri sala fyrir jól en það var líka meira framboð.“

Neysluhegðun þeirra Íslendinga sem kaupa áfengi virðist vera að breytast því nokkur samdráttur hefur orðið á sölu af sterku áfengi. Ítrekuð álagning hins opinbera á áfengi virðist vera farin að gera vart við sig en verð á sterku áfengi hefur hækkað um 40% frá hruni og bjór um 38%.

Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 og var þar einnig rætt við nokkra Íslendinga um hvort þeir hefðu keypt áfengi fyrir jólin. Nánar í myndbandinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×