Innlent

Píratar jafnvel fram víðar en í Reykjavík

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Mikil samkeppni verður um hylli borgarbúar í borgarstjórnarkosningum næsta vor. Píratar tilkynntu framboð sitt í Reykjavík um helgina og eru nú sex flokkar í framboði. Stofnað var félag Pírata í Reykjavík um helgina sem mun bjóða fram lista í vor. Píratar gætu farið fram víðar.

Í könnun félagsvísindastofnunar frá því í síðasta mánuði mældust Píratar með um 10% fylgi í Reykjavík og ná inn manni. Framboðslisti flokksins verður valinn í næsta mánuði með netkosningu. Formaður nýstofnaðs félags Pírata í Reykjavík telur ástæðu til bjartsýni.

„Við munum fara fram alls staðar þar sem áhugi er. Ég veit til þess að það er mikill áhugi í Hafnarfirði og svo vorum við að mælast mjög vel í Reykjanesbæ, hærra en í Reykjavík,“ segir Halldór Auðar Svansson, formaður Pírata í Reykjavík.

Framboðslistar enn óljósir

Besti flokkurinn vann eftirminnilegan kosningasigur árið 2010 þegar flokkurinn fékk sex menn kjörna í borgarstjórn og myndaði meirihluta með Samfylkingunni. Besti flokkurinn hefur nú runnið inn í Bjarta framtíð og mun Jón Gnarr borgarstjóri hætta afskiptum af stjórnmálum. Björn Blöndal, sem verið hefur aðstoðarmaður borgarstjóra, mun skipa efsta sæti Bjartrar framtíðar en listi flokksins var tilkynntur á föstudag.

Enn er óljóst hvernig framboðslisti Sjálfstæðismanna verður skipaður en kjörnefnd mun væntanlega ljúka störfum við að stilla upp listanum á nýju ári. Halldór Halldórsson er oddviti sjálfstæðismanna eftir sigur í prófkjöri í síðasta mánuði.

Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, hefur tilkynnt að hún muni draga sig í hlé og hætta í stjórnmálum. Dagur B. Eggertsson og Björk Vilhelmsdóttir ætla bæði að halda áfram samkvæmt heimildum fréttastofu en Samfylkingin fékk þrjá menn í borgarstjórn í síðustu kosningum. Prófkjör fer fram hjá Samfylkingunni í febrúar.

Vinstri grænir munu velja sinn lista í febrúar. Óskar Bergsson mun leiða Framsóknarmenn í næstu kosningum en flokkurinn náði ekki inn manni árið 2010. Þá hefur fréttastofa heimildir fyrir því að Dögun íhugi framboð í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×