Innlent

Borgarstjóri kvíðir skyldum heimilisföðursins á aðventunni og breytist í Indriða

Heimir Már Pétursson skrifar
Aðventan hófst með formlegum hætti á Austurvelli í Reykjavík í dag, en borgarstjóri fékk aðstoð frá ungum norsk-íslenskum dreng þegar tendrað var á jólatréi Oslóborgar við hátíðlega athöfn.

Oslóarbúar hafa gefið Reykvíkingum jólatréi í 62 ár. Ákveðið var fyrir tíu árum að þetta tiltekna tré sem er fjörtíu og tveggja ára gamalt, yrði gefið Reykvíkingum.  En Jón Gnarr borgarstjóri tók þátt í að fella tréð í nóvember síðast liðnum.

Það mátti sjá jólin nálgast í augum barnanna á Austurvelli í dag á fyrsta sunnudegi aðventu og mörg þeirra vildu tala við borgarstjórann sem fúslega sat fyrir með þeim á mynd. En sjálfur segist Jón ekki vera mikið jólabarn í sér.

„Nei, ég get ekki sagt það,“ segir hann og hlær. En hann samgleðjist með öðrum og þá sérstaklega börnunum.

„En sem faðir margra barna þá hefur þetta oft verið mikil vinna og tímabil vesens. Þannig að ég myndi ekki segja að ég væri mikið jólabarn í mér. Ég er alltaf smá kvíðinn  þegar ég fer að taka upp kassann með seríunum og tékka hvort allar perurnar séu heilar og svona,“ segir Jón.

En brýst þá fræg persóna fram í honum sem hann hefur skapað, Indriði, sem er með flest á hornum sér?

„Já, .... og hver á að laga þetta, á ég að gera það. Af hverju er það alltaf ég,“ segir Indriði í gegnum Jón Gnarr og hlær innilega.

Myndband með hinum ódauðlega Indriða þeirra Fóstbræðra má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×