Íslenski boltinn

Jóhannes Karl til liðs við Fram

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jóhannes Karl er þekktur fyrir sín þrumuskot.
Jóhannes Karl er þekktur fyrir sín þrumuskot. Mynd/Daníel
Framarar hafa gengið frá samningi við Jóhannes Karl Guðjónsson. Miðjumaðurinn mun leika undir stjórn bróður síns Bjarna hjá Safamýrarliðinu næstu tvö árin.

Framarar kynntu Jóhannes Karl til leiks á blaðamannafundi í íþróttahúsi sínu í dag. Skagamaðurinn 33 ára er stærsti bitinn sem Framarar hafa fengið til sín undanfarnar vikur. Fjölmargir leikmenn hafa gengið til liðs við félagið en flestir þeirra með reynslu úr neðri deildum íslenskrar knattspyrnu.

Jóhannes Karl fékk leyfi frá Skagamönnum til að ræða við önnur félög þar sem hann hafði ekki hug á að spila í næstefstu deild. Valsmenn ræddu við Jóhannes Karl og sömuleiðis sýndu FH-ingar og KR-ingar honum áhuga um tíma. Áhuginn reyndist mestur hjá Frömurum sem misst hafa marga sterka pósta úr leikmannahópi sínum undanfarnar vikur.

Almarr Ormarsson hélt til liðs við KR auk þess sem ekki var samið á nýjan leik við neinn af erlendum leikmönnum Framara. Þá var Hólmbert Aron Friðjónsson seldur til Celtic á dögunum.

Jóhannes Karl, sem á 34 landsleiki að baki fyrir Íslands, lék sem atvinnumaður í 15 ár. Racing Genk, RKC Waalwijk, Real Betis, Aston Villa, Wolves, Leicester, AZ Alkmaar, Burnley og Huddersfield nutu öll góðs af miðjumanninum á löngum ferli.

Miðjumaðurinn er af mikilli fótboltafjölskyldu. Auk þeirra Bjarna er Þórður Guðjónsson einnig bróðir þeirra en faðir þeirra er sem kunnugt er þjálfarinn Guðjón Þórðarson. Þá er atvinnumaðurinn Björn Bergmann Sigurðarson hálfbróðir þeirra félaga en þeir eiga sömu móður.

Jóhannes Karl og Bjarni á blaðamannafundinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×