Innlent

Einn þekktasti vísindamaður heims með erindi í HÍ

Stefán Árni Pálsson skrifar
Dr. Dennis Meadows.
Dr. Dennis Meadows.
Dr. Dennis Meadows, einn þekktasti vísindamaður heims á sviði sjálfbærrar þróunar, flytur erindi í Háskóla Íslands í dag en fyrirlesturinn er á vegum Háskóla Íslands og Stofnunar Sæmundar fróða.

Vísindamaðurinn fer með fyrirlesturinn „Endurskoðun hugtaksins sjálfbær þróun“ í hátíðarsal aðalbyggingar Háskóla Íslands en hann hefst kl. 13.30 og stendur yfir í eina klukkustund.

Dr. Dennis Meadows er meðal þekktustu fræðimanna heims á sviði sjálfbærra þróunar. Hann er prófessor í kerfisstjórnun og fyrrverandi forstöðumaður stofnunar um stefnumótun og félagsvísindi við Háskólann í New Hampshire.

Hann stýrir nú rannsóknastofu um gagnvirkt nám. Dr. Meadows er þekktastur fyrir að vera meðhöfundur skýrslunnar „Takmörk vaxtar“ (Limits to Growth) frá árinu 1972. Í skýrslunni nýttu höfundar svokölluð kvik kerfislíkön til að sýna afleiðingar samspils fólksfjölgunar og takmarkaðra náttúruauðlinda.

Tilgangurinn var ekki að spá ákveðið um framtíðina heldur að kanna samspil veldisvaxtar og takmarkaðra auðlinda. Nú, 40 árum eftir að skýrslan kom út, reynist líkanið hafa staðist og þau vandamál sem mannkynið stendur frammi fyrir eru of margir jarðarbúar, eyðilegging vistkerfa, mengun og þverrandi náttúruauðlindir.

Dr. Meadows hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir framlag sitt til vísinda, þar á meðal Japansverðlaunin 2009 en þau eru veitt fyrir frumleg og framúrskarandi afrek í vísindum og tækni sem stuðla að farsæld mannkynsins.

Hann hefur stýrt rannsóknastofnunum við MIT, Dartmouth College og University of New Hampshire, setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og verið ráðgjafi ríkisstjórna í Bandaríkjunum og víðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×