Innlent

70 sinnum meira af LSD hjá Tollinum

Samúel Karl Ólason skrifar
14.000 e-töflur hafa verið haldlagðar á þessu ári. En aðeins 1.500 á síðasta ári.
14.000 e-töflur hafa verið haldlagðar á þessu ári. En aðeins 1.500 á síðasta ári. Mynd/Tollstjóri
Starfsmenn á Vogi telja meira magn efnisins MDMA, sem helst er að finna í e-töflum, hafa verið í umferð á Íslandi á þessu ári. Tollverðir telja einnig að aukið magn LSD sé í umferð. 

Fyrr í dag var sagt frá því á Vísi að tollverðir hefðu haldlagt rúmlega 14.000 e-töflur það sem af væri á árinu. Árið 2012 voru handlagðar 1.500 töflur, svo um gríðarlega aukningu er að ræða þar.

Valgerður Rúnarsdóttir læknir á Vogi segir í samtali við Vísi að MDMA hafi verið áberandi á þessu ári. „Það er okkar tilfinning. Það er augljóslega búið að vera talsvert af því efni á markaðinum þetta árið.“ Þó LSD notkun stingi alltaf upp kollinum hafa starfsmenn Vogs ekki tilfinningu fyrir því að neysla þess fari vaxandi.

Kári Gunnlaugsson, yfirtollvörður, segist ekki vera viss um að um aukna neyslu e-tafla sé að ræða. Meðal þeirra 14.000 tafla sem hafa verið haldlagðar er um eina stóra sendingu að ræða. „Við vitum ekki hvort að við höfum verið að standa okkur svona vel eða þá að um aukna neyslu sé að ræða. Ég held ekki, frekar held ég að okkur hafi tekist að vinna vinnuna okkar.“

Tollurinn hefur tekið margar smáar sendingar af LSD á árinu.Mynd/Tollstjóri
Tollurinn hefur á þessu ári náð 700 skömmtum af LSD á þessu ári, en á því síðasta voru 10 skammtar haldlagðir. Það er um 70 sinnum meira af LSD sem tollurinn gerði upptækt á síðasta ári.

Kári yfirtollvörður segist ekki vera viss um hvort um sé að ræða aukna neyslu

„Magn LSD sem við höfum tekið á árinu er mikið áhyggjuefni. Þar er um að ræða margar smáar sendingar sem fólk er að fá í pósti og allavega. Þó engar rannsóknir liggi þar að baki þykir okkur það vera áhyggjuefni og benda hugsanlega á aukna neyslu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×