Innlent

Lögreglan biðlar til almennings að fylgjast með

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Myndin er sviðsett.
Myndin er sviðsett. Mynd/
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetur fólk til að láta vita um grunsamlegar mannaferðir, ekki síst í íbúðahverfum. Innbrot á heimili eiga sér oft stað að degi til og þá geta upplýsingar, til dæmis frá nágrönnum, ráðið miklu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Það sem fólki kunni að finnast lítilfjörlegt geti einmitt orðið til þess að upplýsa mál. Hér sé meðal annars átt við lýsingu á mönnum og bifreiðum en gott er að skrifa slíkt hjá sér ef fólk tekur eftir einhverju óvenjulegu í sínu nánasta umhverfi segir í tilkynningunni.

Sama gildi um bílnúmer en slíkar upplýsingar geta komið lögreglu á sporið. Innbrotsþjófar fylgjast gjarnan með húsum áður en þeir láta til skarar skríða og því er mikilvægt að hafa þessi atriði í huga.

Lögreglan segir að betra sé að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessi tagi en einu sinni of sjaldan.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga og þolir einhverja bið er fólk vinsamlegast beðið að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í einkaskilaboðum á Facebook-síðu lögreglunnar eða í síma 444-1000 á hefðbundnum skrifstofutíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×