Innlent

Mikill skortur á forriturum á Íslandi

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Skortur er á forriturum á Íslandi og mikil samkeppni um hæfa starfsmenn. Tvöfalda þarf fjölda forritara til að anna eftirspurn. Stofnaður hefur verið sjóður til að styðja við upplýsinga- og tæknimenntun í skólum landsins.

Ísland stendur frammi fyrir skorti á tæknimenntuðu starfsfólki. Eftirspurn eftir forriturum hefur líklega aldrei verið meiri og ljóst að nauðsynlegt er að bregðast við til að mæta þörfum markaðarins. Af þessu tilefni hefur sjóðurinn Forritarar framtíðarinnar verið stofnaður en hann hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins.

„Háskólarnir eru að anna um 50% af eftirspurn markaðarins og það er mikil samkeppni um tæknimenntað fólk,“ segir Guðmundur Tómas Axelsson, markaðsstjóri hjá Reiknistofu bankanna. „Við erum að hugsa þetta svolítið stórt. Eins og þegar sparkvöllum var plantað út um allt. Við sjáum hvar landsliðið okkar í knattspyrnu er staðsett núna. Við erum að sá fræjunum.“

Í nýrri aðalnámsskrá grunnskóla landins er einungis ríflega 3 prósent af vikulega kennslutíma ráðstafaða í upplýsinga- og tæknimenntun. Ákall er um betri tæknimenntun í skólum landsins - sem sagt; að kennslan fari af krítartöflunni og yfir í tölvurnar.

„Skólakerfið situr í ástandi sem allir eru sammála um að er gríðarlega óþægilegt. Það vilja allir komast af stað og það eru allir tilbúnir. Fjármagnið lætur á sér standa. Við erum eins og þjóð að losna úr höftum á þessu sviði,“ segir Ragnar Þór Pétursson, sérfræðingur hjá Skemu.

Fréttastofa leit við í Austurbæjarskóla í dag eins og sjá má í myndbandinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×