Innlent

Ný íslensk tækni gæti sagt til um fyrirburafæðingar: "Eykur öryggi og sparar í heilbrigðiskerfinu"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Ásgeir Alexandersson, læknir og meistaranemi í heilbrigðisverkfræði í Háskólanum í Reykjavík, er hluti teymis sem stendur að verkefni sem snýst um að nota rafskaut til að fylgjast með rafvirkni í legi óléttra kvenna og greina þannig samdrætti. „Draumurinn er að reyna að finna leið til að greina konur sem eru í fyrirburafæðingum eða í hættu á þeim og ná að veita þeim meðferð fyrr til að koma í veg fyrir eða seinka fyrirburafæðingum,“ segir Ásgeir.

Teymið hefur verið hluti af evrópskum rannsóknarhópi í fimm ár og er stórt alþjóðlegt fyrirtæki á sviði heilbrigðistækni komið inn í ferlið. Markmiðið er að tæknin verði hluti af búnaði sem framleiddur er fyrir fæðingardeildir og jafnvel einnig heilsugæslustöðvar. „Þetta myndi auka öryggi. Hjá fyrirburum er skaði eins og heilaskaði algengari  og sum börnin lifa ekki af. Fyrirburafæðingar og umönnun fyrirbura er lík mjög dýr þannig að þessi tækni gæti vonandi fækkað þessum tilfellum og um leið sparað í heilbrigðiskerfinu.“

Tveggja daga gamall drengur, sem sjá má í meðfylgjandi sjónvarpsfrétt, lét umræður um tækninýjungar ekkert trufla sig í dag, en ef verkefnið gengur vel  hjá Ásgeiri og félögum gæti það stuðlað að fleiri heilbrigðum meðgöngum og fæðingum þegar fram í sækir.

Og verður þetta á öllum fæðingardeildum í framtíðinni?

„Ekki spurning,“ segir Ásgeir og brosir. „Vonandi alla vega. Það er draumurinn og það gæti gerst,“ segir hann.

Í síðustu viku var undirritað samkomulag milli Háskólans í Reykjavík og Landspítalans um stofnun nýs rannsóknarseturs í heilbrigðisverkfræði. Þetta segir Ásgeir mjög mikilvægt, enda snúist greinin um að nýta aðferðir verkfræðinnar til að leysa hin ýmsu heilbrigðisvandamál. „Þetta er framtíðin og þetta verður bara meira og meira spennandi svið.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.