Innlent

Þakklát og glöð yfir því að skipið sé farið

Samúel Karl Ólason skrifar
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir segist vona að svifryksmengunin frá skipinu hverfi í dag.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir segist vona að svifryksmengunin frá skipinu hverfi í dag.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar segist glöð yfir því að Fernanda hafi verið dregin úr höfn í Hafnarfirði. Ekki hafi verið haft sambandi við yfirvöld í Hafnarfirði áður en skipið var dregið þar að höfn. „Við höfum ekkert um það að segja í Hafnarfirði því við erum neyðarhöfn og hluti af slökkviliði höfuðborgarssvæðisins. Það er ekki haft samband við okkur áður en skipið kemur að höfn og við höfum líklega verið sú neyðarhöfn sem næst var skipinu,“ segir Guðrún.

„Við erum þakklát og glöð yfir því að skipið hafi verið dregið úr höfninni. Yfir afmörkuðum hluta Hafnarfjarðar, Holtinu, var mjög mikið svifryk í morgun. Það er bölvað eitur sem kemur þegar kviknar í og því erum við mjög glöð með að skipið sé farið. Þegar nálgast hádegið vorum við heppin því vindurinn sneri sér á haf, en það mælist enn mikil svifryksmengun á mælistöð á Hvaleyrarholti. Það er enn smá gult mistur yfir og nú vantar okkur rokið. Það er nánast logn í dag. Við vonumst til þess að þetta hreinsi sig þegar líður á daginn,“ segir Guðrún.

Hún segir aðstæður hafa breyst í skipinu eftir að því var komið fyrir við bryggjuna. „Þeir mátu ástandið þannig að hættuminna væri að draga skipið að bryggju. Síðan eru aðstæður aðrar en þeir búast við og þeir bregðast við því. Þegar sést að tökum verði ekki náð á ástandinu er skipið tekið í burtu, en það sem gerist er að þegar ákveðið rými var opnað gýs eldurinn aftur upp. Þeir eru alltaf að ná tökum á eldinum en upp koma nýjar og nýjar aðstæður.“

Guðrún segir ennfremur að slökkviliðsmenn hafi verið að leggja sig í mikla hættu í dag. „Við eigum nú að vera stolt af því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×