Innlent

Bráðalifrarbólga eftir neyslu fæðubótarefnis

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Matvælastofnun varar við hættu á bráðalifrarbólgu eftir neyslu á fæðubótarefninu Oxy Elite Pro.

Samkvæmt tilkynningu frá stofnuninni hefur Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) sent út viðvörun vegna efnisins, þar sem vitað um fjölda sjúkdómstilfella í Bandaríkjunum sem talin eru tengjast vörunni og af þeim hafa tveir þurft að fá nýja lifur.

Hægt er að rekja eitt dauðsfall til neyslu á vörunni.

Fæðubótarefnið er notað af vaxtaræktarfólki en ólöglegt er að flytja það inn og/eða selja það hér á landi vegna óleyfilegra innihaldsefna.

Þó hefur verið hægt að nálgast vöruna í gegnum netverslun og því varar Matvælastofnun neytendur við neyslu hennar.

Fæðubótarefni eru matvæli sem almennt eru í frjálsu flæði til landsins og því fyrst og fremst undri markaðseftirliti. Eftirlit með fæðubótarefnum á markaði er í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Innflutningseftirlit er í höndum Matvælastofnunar og síðustu ár hefur innflutningseftirlit með fæðubótarefnum verið talsvert aukið.

Matvælastofnun beinir því til neytenda að vera varkárir þegar þeir kaupa fæðubótarefni á internetinu og leita sér nánari upplýsinga um vörur sem þeir kaupa og innihald þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×