Innlent

Telja að ummæli hafi mögulega skaðað Íbúðalánasjóð

Íbúðalánasjóður
Íbúðalánasjóður
Þingmenn stjórnarandstöðunnar telja að ummæli formanns fjárlaganefndar um að ríkið beri ekki ábyrgð á Íbúðalánasjóði geti skaðað sjóðinn.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks og formaður fjárlaganefndar Alþingis sagði í viðtali við Bloomberg fréttastofuna í síðustu viku að hún efist um að ríkið beri ábyrgð á Íbúðalánasjóði. Ummælin urðu til þess að minnihluti fjárlaganefndar óskaði eftir aukafundi til að fara yfir málið en þeirri beiðni var hafnað.

Nefndin mun hins vegar funda með fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra og forstjóra Fjármálaeftirlitsins á mánudag vegna málsins.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, telur að ríkið beri ábyrgð á sjóðnum. Hún segir hins vegar mikilvægt að eyða öllum vafa varðandi þetta mál. Hún vill að ráðherrar skýri afstöðu ríkisstjórnarinnar til málsins.



„Auðvitað getur þetta haft áhrif á vaxtastig og lántökumöguleika sjóðsins. Það er mikilvægt að fá þetta á hreint,“ segir Oddný.

Vigdís hafnar því að ummæli hennar hafi mögulega skaðað sjóðinn.

„Ég sé ekki hvernig þetta ætti að skaða sjóðinn þegar við erum að velta því fyrir okkur hvort það sé raunveruleg ríkisábyrgð á sjóðnum. Hvort það sé einföld ríkisábyrgð á sjóðnum eða hvernig ríkisábyrgð er á sjóðnum og hvort hún sé yfir höfuð á sjóðnum. Þetta er bara umræða sem við þurfum að taka sem samfélag sem er að reyna að ná sér á strik eftir bankahrun,“ segir Vigdís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×