Innlent

Skapa vallarstemningu í Laugardalshöllinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Stuðningsmenn íslenska landsliðsins sem ekki eiga miða á landsleik Íslands og Króatíu munu geta horft á leikinn í Laugardalshöll.
Stuðningsmenn íslenska landsliðsins sem ekki eiga miða á landsleik Íslands og Króatíu munu geta horft á leikinn í Laugardalshöll.
Landsleikur Íslands og Króatíu þann 15. nóvember verður sýndur í beinni útsendingu í Laugardalshöll á risa skjám og bíótjöldum. Þar verður einnig upphitun fyrir leikinn. Bæði fyrir þá sem ætla á völlinn og þá sem ætla að horfa í Höllinni. „Fyrst og fremst er þetta ákveðið viðbragð við þeim feikilega áhuga sem er fyrir leiknum. Þessi hugmynd kom upp til að mæta þeirri ósk fólks að horfa, í miklum fjölda, saman á leikinn og að hafa það í kappleikja umhverfi,“ segir Jón Kaldal formaður Þróttar.

„Ég tel að klárlega sé mikill áhugi fyrir þessum leik, enda stærsti leikur í sögu íslenskrar knattspyrnu. Það gæti orðið hrikalega skemmtilegt, að stór hópur fólks mæti þarna og horfi saman á leikinn. Þetta gæti orðið mikil stemning.“ Miðasala í Höllina hefst klukkan 16:00 á laugardaginn á Miði.is. Miðinn kostar 1.500 krónur fyrir fullorðna og 1.000 fyrir börn. Ekkert kostar fyrir þá sem eiga miða á leikinn að taka þátt í upphituninni.

Fyrir síðustu heimaleiki íslenska landsliðsins hafa Köttarar, stuðningsmenn Þróttar, haldið upphitun og töflufundi í anddyri Laugardalshallarinnar. „Þar hefur verið hörkustemning og þá hafa hópar stuðningsmanna hitað upp áður en þeir fara á völlinn. Núna verður þetta eins, hitað upp í anddyrinu og svo munu þeir sem eiga miða fara á völlinn og aðrir horfa á hann í Höllinni í félagsskap annarra áhugmanna.“

„Við erum að búa til stemningu eins og væri að fara á völlinn. Menn munu hita upp saman og vera í merktum klæðnaði og með trefla og í góðum gír. Bæði þeir sem ætla að horfa á hann í beinni og þeir sem fara á völlinn.“ Upphitunin hefst klukkan 16:00 í anddyri Laugadalshallar og þétt dagskrá verður í boði frá 17:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×