Innlent

Jón Gnarr ætlar ekki fram

Jakob Bjarnar skrifar
Jón Gnarr ætlar ekki fram í næstu kosningum.
Jón Gnarr ætlar ekki fram í næstu kosningum.
Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, tilkynnti um það nú fyrir skömmu að hann ætli ekki fram í næstu borgarstjórnarkosningum.

Jón og Sigurjón Kjartansson voru í hljóðveri Rásar tvö í morgun til að vekja athygli á átaki Krabbameinsfélagsins, Bleiku slaufunni og hafði Jón boðað að þar og þá myndi hann segja til um áform sín. Það gekk eftir.

Þetta kemur mjög á óvart en í nýlegri könnun Gallups sem gerð var dagana 12. september til 13. október kom fram að fylgi Besta flokksins hefur ekki verið meira síðasta árið. Besti flokkurinn nýtur skamkvæmt könnuninni 37 prósenta fylgis, 31 prósent styðja Sjálfstæðisflokkinn, 15 prósent Samfylkinguna og 10 prósent segjast ætla að kjósa Vinstri græn í næstu borgarstjórnarkosningum. Þá segjast 4 prósent styðja Framsóknarflokkinn.

Ef marka má könnunina þá fer svo að Besti flokkurinn bætir við sig einum borgarfulltrúa. Jón Gnarr var að vonum í sjöunda himni og tjáði sig um könnunina á Facebooksíðu sinni, þá í miklum ham: „Besti flokkurinn fær 37% samkvæmt skoðanakönnun Gallup eftir 1223 daga við völd. Gerið betur! Er heimurinn reiðubúinn fyrir Besta flokkinn? Erum við næsti Kólumbus? Heimsyfirráð eða dauði.“

Þessi orð og ýmislegt annað hefur verið talið til marks um að borgarstjórinn sé hvergi nærri á förum úr borgarpólitíkinni en nú hefur annað komið á daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×