Innlent

Heilbrigðisráðherra hættir við byggingu hjúkrunarheimilis

Heimir Már Pétursson skrifar
Heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt Reykjavíkurborg að byggingu tæplega 90 hjúkrunarrýma fyrir aldraða í borginni hafi verið slegið á frest. Formaður borgarráðs harmar þessa ákvörðun en þörf sé á byggingu um 250 hjúkrunarrýma á höfuðborgarsvæðinu á næstu tveimur árum.

Ríkisstjórnin hefur hætt við flest það sem var sett fram í fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar og nú hefur heilbrigðisráðherra að auki tilkynnt borginni að ekki verði farið eftir viljayfirlýsingu sem fyrrverandi velferðarráðherra og formaður borgarráðs undirrituðu í apríl um byggingu hjúkrunarheimilis fyrir aldraða við Sléttuveg í Reykjavík. En þar átti í samvinnu við Hrafnistu að byggja hjúkrunarheimili fyrir 88 manns.

„Þetta þýðir að mjög mikilvæg uppbygging í þágu aldraðra hér við Sléttuveg í samvinnu Hrafnistu og borgarinnar er í uppnámi. Þar með eru auðvitað þeir áttatíu og átta einstaklingar á hverjum tíma sem þurfa hjúkrunarrými í uppnámi og þeirra aðstandandendur,“ segir Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs.

Þá séu þetta slæmar fréttir fyrir Landsspítalann því eitt af vandamálum hans sé að geta ekki útskrifað aldraða einstaklinga sem þurfi á hjúkrunarheimilum að halda. Talið er að byggja þurfi hjúkrunarheimili fyrir 250 einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu á næstu tveimur árum og nú þegar eru 116 einstaklingar á biðlista eftir slíku heimili þar af 84 í Reykjavík.

„Það er í raun erfiðara að komast á þennan biðlista en áður því við erum farin að sinna meira veiku fólki heima í gegnum heimahjúkrun og heimaþjónustu. En það sem er athyglivert við þennan biðlista að auki er að það er mjög hátt hlutfall Reykvíkinga á honum. Þannig að við teljum mjög brýnt að hjúkrunarheimili rísi hér í Reykjavík,“ segir formaður borgarráðs.

Þá gera áætlanir ráð fyrir að íbúum eldri en áttatíu ára á höfuðborgarsvæðinu fjölgi um 68 prósent fram til ársins 2030, eða um tæplega 4.500 manns. Dagur segir borgina veita öfluga heimaþjónustu og vilja gera það áfram.

„En við verðum líka að horfast í augu við það að sumt fólk er það veikt að það þarf á hjúkrunarheimili að halda. Við eigum býsna traustar spár um þennan fjölda fyrir næstu ár og allar tölur segja okkur að þörfin er mjög brýn,“ segir Dagur B. Eggertsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×