Innlent

Svikahrappur á Akureyri

Maðurinn var handtekinn í sumar og á sér langan afbrotaferil að baki, m.a. vegna ofbeldis. Þá hafa a.m.k. 11 mál verið send frá lögregluembættinu á Akureyri og bíða þau mál nú ákæru.

Ekkert lát virðist þó vera á brotum mannsins sem ennþá hefur samband við fólk í gegnum vefsíðuna bland.is og reynir að stofna til viðskipta á alls konar vörum.

Gunnar Jóhannsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á Akureyri segir að fólk þurfi að beita almennri skynsemi í netviðskiptum.

„Manni finnst fólk oft fara óvarlega í þessum viðskiptum.Að leggja inn á fólk sem það þekkir ekkert til og hefur ekki hugmynd um hver er.“

Einn einstaklingur sem vildi ekki koma fram undir nafni sagði í samtali við Fréttastofu að maðurinn komi mjög vel fyrir og trúverðugleiki hans sé mikill. Þá láti hann líta út sem svo að honum sé mjög annt um að varan sem um ræði í hvert skipti komist örugglega til skila sem að gerist svo aldrei.

Margir einstaklingar hafa skrifað á vefsíðuna bland.is og segja að hann hafi reynt að svíkja fé út úr þeim með loforðum um t.d. síma, tölvur, fatnað, húsbúnað og varahluti en þegar maðurinn hafi ekki viljað afhenda vöruna áður en hann fengi greitt hafi þau bakkað út úr viðskiptunum.

Gunnar segir að mikilvægt sé að fara til seljenda og ganga úr skugga um að vara sé raunverulega til sölu. Hann segir það þó líklegt sé að mörg tilfelli séu aldrei kærð til lögreglu.

„Ég held að það sé nokkuð víst að það eru mörg svona tilvik sem eru ekki kærð til lögreglu. Bæði sér fólk fram á að peningurinn er glataður því þessir aðilar sem stunda þetta eru aldrei borgunarmenn fyrir þeim upphæðum sem þeir hafa svikið af fólki. Og svo skammast fólk sín hálfpartinn fyrir að hafa látið plata sig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×