Íslenski boltinn

Bjarni Guðjóns: Það býr mikill fótbolti í þessum strákum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarni Guðjónsson, nýr þjálfari Fram í Pepsi-deild karla, hefur safnað að sér ungum og frekar óþekktum leikmönnum að undanförnu á meðan liðið hefur á sama tíma misst reynslumikla menn. Gaupi kannaði hvað var í gangi hjá yngsta þjálfaranum í Pepsi-deildinni 2014.

Á síðustu dögum hefur Bjarni fengið til liðs við Fram þá Ásgeir Marteinsson frá HK, Ósvald Jarl Traustason frá Breiðabliki, Alexander Már Þorláksson frá ÍA, Einar Bjarni Ómarsson frá KV, Arnþór Ari Atlason frá Þrótti og Hafsteinn Briem frá Haukum. En hefur Bjarni séð þá alla spila?

„Ég hef séð eitthvað af þeim öllum, bæði á myndbandi og svo hef ég fylgst eitthvað með fótboltanum líka. Einhverjir þeirra eru komnir yfir tvítugt og þú ert ekki efnilegur langt fram eftir aldri. Það er komin reynsla í einhverja þeirra en aðrir eru ungir og efnilegir," sagði Bjarni Guðjónsson í viðtali við Guðjón Guðmundsson á Stöð2 í kvöld.

„Það er skemmtilegt og ögrandi að fá tækifæri til að þjálfa þá. Það býr mikill fótbolti í þessum strákum og maður sér það að þeir þurfa að fá tækifæri. Það er ekki spurning um hvort að þeir séu góðir í fótbolta. Það er ekkert betra en að fá tækifæri og fá einhvern sem hefur trú á þér þegar þú ert ungur og efnilegur," sagði Bjarni Guðjónsson sem sjálfur fékk tækifærið sautján ára gamall með ÍA sumarið 1996.

„Maður byggir ekki liðið bara upp á ungum og efnilegum strákum og það er alveg klárt mál. Við ætlum að reyna að hafa hryggjarstykkið í liðinu með meiri reynslu og hafa þar eldri og reyndari leikmenn. Við þurfum að vinna aðeins í því líka en einhverjir leikmenn eru nú líka fyrir í Fram. Þetta er fín byrjun hjá okkur," sagði Bjarni.

Það er hægt að sjá fréttina hans Gaupa með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×