Innlent

Segir ákæruvaldið hafa gengið of langt í málinu

Elísabet Hall skrifar
Hæstiréttur vísað á dögunum frá máli er varðaði 16 ára stúlku sem ákærð var fyrir rán og fjársvik.

Stúlkan hafði mælt sér mót við mann af stefnumótasíðunni einkamal.is og boðið honum vændi gegn greiðslu. Óskaði stúlkan eftir því að maðurinn greiddi henni 20 þúsund krónur í reiðufé gegnum glugga á bifreið hans og þegar maðurinn rétti henni peninginn tók stúlkan til fótanna og stakk af. 

Var stúlkunni gefið að sök að hafa svikið manninn um viðskipti þar sem hún hafi ekki efnt kynlífsviðskiptin.

Í úrskurði héraðsdóms segir að eini möguleiki hinnar ákærðu til að losna frá refsiábyrgð hafi verið að standa við kynlífsþjónustuna.

„Það er mat dómsins að vændiskaup viðsemjanda ákærðu, sem var barn að aldri, njóti ekki réttarverndar 248. gr. almennra hegningarlaga þótt um vændiskaupin hafi farið eins og lýst er í ákærunni. Vændiskaupandinn gat ekki vænst verndar refsivörslunnar þótt um viðskiptin hafi farið eins og lýst er í ákærunni. Önnur skýring á efni 248. gr. almennra hegningarlaga leiddi til þess að eini möguleiki ákærðu til að losna frá refsiábyrgð hafi verið sá að standa við kynlífsþjónustuna sem um ræðir. Að mati dómsins er sú niðurstaða ótæk.“

Jón Bjarni Kristjánsson, héraðsdómslögmaður og verjandi stúlkunnar, segir ákæruvaldið hafa gengið of langt í málinu.

„Ég held að eina ályktunin sé hægt að draga af þessu máli sé að lögreglustjóri hafi farið fram úr sér og hefði mátt sýna frumkvæði af því að fella málið niður. Það má eiginlega segja að þetta svipi til þess sem hefur verið viðurkennt um langa hríð að þú getir til að mynda ekki innheimt spilaskuldir eða fíkniefnaskuldir. Í þessu tilfelli ganga viðskiptin gróflega gegn almennu velsæmi því hér er verið að tala um vændiskaup af barni“.

Samkvæmt upplýsingum sem fréttastofa hefur var gefin út ákæra á hendur manninum en ekki hefur náðst í Sigríði Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara, vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×