Innlent

Stríðið gegn Tor

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Silk Road var vistuð á svokölluðu undirneti, eða Tor-neti sem þróað var af bandaríska sjóhernum fyrir um áratug og er falið hinum venjulega netnotenda.
Silk Road var vistuð á svokölluðu undirneti, eða Tor-neti sem þróað var af bandaríska sjóhernum fyrir um áratug og er falið hinum venjulega netnotenda. MYND/FRÉTTASTOFA
Lögregluyfirvöld vítt og breitt um heiminn freista þess nú að uppræta umfangsmikla fíkniefna- og barnaklámshringi á hinu svokallaða undirneti. Milljónir nota þessa þjónustu á hverjum degi.

Alþjóðleg lögregluaðgerð bandarísku alríkislögreglunnar og rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á dögunum batt enda á markaðssvæðið Silk Road.

Vefsíðan var einn stærsti fíkniefnamarkaður veraldar, kölluð eBay fíkniefnaheimsins, þar sem verslun með ólöglegan varning fór fram í krafti nafnleyndar.

Silk Road var vistuð á svokölluðu undirneti, eða Tor-neti sem þróað var af bandaríska sjóhernum fyrir um áratug og er falið hinum venjulega netnotenda.

Þetta undirnet er þó með eindæmum einfalt í notkun. Hægt er að nálgast Tor-vafrann eins og hvað annað forrit. Þegar vistfang er slegið inn í vafrann er beiðnin dulkóðuð og leidd í gegnum fjölda tengipunkta eða tölva vítt og breitt um heiminn. Um leið verður nær ómögulegt að rekja slóð viðkomandi.

Barnaklám og fíkniefnaviðskipti eru sannarlega til staðar á Tor, eins og dæmi Silk Road sýnir. En Tor býður einnig upp á frelsi frá ritskoðun. Aðgerðarsinnar og uppljóstrar nýta sér kerfið og nægir að benda á Edward Snowden sem leitaði í Tor til að birta gögn um persónunjósnir bandarískra yfirvalda á internetinu.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.MYND/PJETUR
„Það sem þykir fréttnæmt og fólk tekur eftir er að yfirleitt það sem er sláandi,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. „Þessar raddir eru ávallt háværar fyrst um sinn þegar svona tækni er annars vegar. En þetta er auðvitað ekkert nýtt fyrir okkur tölvunördunum.“

Bandaríska alríkislögreglan hefur sótt hart að Tor undanfarið. Hún hefur staðið yfir árásum á faldar vefsíður þar sem barnaklám var vistað en einnig á frjálsa póstþjónustu Tor-netsins.

„Þetta er áframhaldandi tækniþróun á upplýsingasviði. Jafnvel þó að Tor yrði tekið niður, sem ég veit ekki hvernig myndi eiga sér stað, þá kæmi bara eitthvað annað í staðinn. Þetta er einfaldlega hluti af þessum nýja veruleika sem við verðum að taka tillit til,“ segir Helgi Hrafn.


Tengdar fréttir

Íslensk yfirvöld aðstoðuðu FBI

Lögregluyfirvöld hér á landi aðstoðu FBI í maí síðastliðnum við rannsókn á starfsemi vefsíðunnar Silkroad, sem hýsti markaðssvæði með ólögleg fíkniefni og aðra ólögmæta starfsemi.

Íslendingar notuðu eBay fíkniefnaheimsins

Eitt stærsta fíkniefna-markaðssvæði á internetinu, oft kallað eBay fíkniefnaheimsins, notaði íslensk gagnaver til að fela slóð sína. Mörg dæmi eru um að íslenskir fíkniefnaneytendur hafi nýtt sér þessa þjónustu hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×