Innlent

Áhyggjufullir læknanemar minna á sig

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjóla Dögg Sigurðardóttir formaður Félags læknanema.
Fjóla Dögg Sigurðardóttir formaður Félags læknanema.
Frá því var sagt á Vísi í morgun að Björt Ólafsdóttir þingmaður Bjartrar framtíðar sagði á þingi í gær að hún hafi vaknað þá um nóttina við hljóð frá símanum sem sem sagði henni að tölvupóstar væru að berast. Þá höfðu um 200 íslenskir læknanemar á Íslandi, Danmörku, Ungverjalandi, Slóvakíu, Eistlandi og Póllandi sent Alþingismönnum tölvupósta og voru flestir þeirra undir heitinu: „Ég kýs sterkt heilbrigðiskerfi, hvað kýst þú?“ Í tölvupóstinum voru nemarnir að senda Alþingismönnum ákall um að gera gangskör í heilbrigðismálum.

Fjóla segir íslenska læknanema um allan heim hafa áhuggjur af stöðu mála hér á Íslandi. Þessi leið var notuð til að vekja athygli á því að um stóran hóp fólks er að ræða. „Þegar fjárlögin voru kynnt leituðu læknanemar erlendis til okkar því þau höfðu miklar áhyggjur af því að umbætur innan heilbrigðiskerfisins væru ekki á dagskrá miðað við fyrstu tillögu fjárlaga. Við ákváðum að láta slag standa og sýna að við erum ekki einn einstaklingur eða lítill hópur, heldur er þetta mikill og stór hópur verðandi fagfólks í heilbrigðisgeiranum sem hefur mikla áhyggjur af þróun mála. Þessi leið bauð líka upp á að allir gætu tekið þátt á eigin forsendum,“ segir Fjóla Dögg Sigurðardóttir formaður Félags læknanema. Félag læknanema ásamt formönnum íslenskra læknanema erlendis settu fram hugmynd sem læknanemarnir gátu breytt og sent eigin útgáfu af.

„Læknanemar hafa miklar áhyggjur og við teljum mjög mikilvægt að Landspítalinn og heilbrigðiskerfið fái meira fjármagn. Án aukins fjármagns verður lítið hægt að gera til að byggja upp þjónustuna og fáir sem sjá fram á að geta starfað hérlendis. Landspítalinn er í dag ekki samkeppnishæfur spítölum erlendis varðandi vinnuaðstæður, kjör og tækjabúnað sem gerir það að verkum að fólk getur síður hugsað sér að starfa hér. Af því höfum við miklar áhyggjur,“ segir Fjóla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×