Innlent

Kynferðisleg áreitni innan lögreglunnar: "Þetta var bara hluti af starfinu"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Berglind Eyjólfsdóttir segir kynferðislega áreitni fara fram þegar enginn sjái til, en segir samstarfskonur oft hafa sagt henni frá slíkum tilvikum. Hún segir brotin mismunandi, en alltaf alvarleg. „Vegna þess að þetta á aldrei að eiga sér stað og hvert einasta brot, hversu smávægilegt sem það er, á meðan þú upplifir þig sem fórnarlamb kynferðislegrar áreitni, þá er það alvarlegt,“ segir hún.

Berglind varð sjálf fyrir kynferðislegri áreitni í vinnunni, snemma á sínum ferli.

Og viltu segja frá á hvaða hátt?

„Það var á ansi grófan hátt og ég hef rætt það við mína kollega en ætla ekki að ræða það hérna.“

Hún segir ekkert hafa verið unnið úr því máli, enda hafi hugtakið „kynferðisleg áreitni“ varla þekkst á þeim tíma. „Það lá við að þetta væri bara eitthvað sem þú þurftir að sætta þig við. Þetta var bara hluti af starfinu.“

Og heldurðu að eitthvað hafi breyst síðan?

„Ég hélt það, en mér finnst þessi könnun sýna að það hefur ekki mikið breyst.“

Hún segir að nú séu að koma upp á yfirborðið, hlutir sem hana grunaði að kraumuðu undir. „Og ég bara trúi því, þar til annað kemur í ljós, að embættin öll, á landsvísu, komi til með að bregðast við þessu,“ segir hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×