Innlent

12 ára ofurhetja skaut skólabörnum skelk í bringu

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Lögreglan var kölluð að Háaleitisskóla við Hvassaleiti í gær.
Lögreglan var kölluð að Háaleitisskóla við Hvassaleiti í gær. mynd/Daníel Rúnarsson
„Ég vildi ekki að mitt fólk væri að vasast í þessu, ef um væri að ræða vopnaðan mann eins og frést hafði, því hringdi ég á lögregluna,“ segir Hanna Guðbjörg Birgisdóttir, skólastjóri í Háaleitisskóla.

En lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð að Háaleitisskóla við Hvassaleiti í gær, eftir að henni barst tilkynning um að skuggalegur maður hefði sést á gangi á lóð skólans og á þakinu í gær.

Samkvæmt mbl.is var um að ræða 12 ára dreng í ofurhetjubúning og virtist sem að um prakkarastrik væri að ræða.

Hanna var ekki í byggingunni í gær, þar sem hún var stödd í unglingaskólanum, Háaleitisskóla við Álftamýri. „Ég setti þetta bara í hendur á lögreglunni og bað þau að fara að athuga málið, eftir að ritarinn í hafði samband við mig.“

Foreldrar og forráðamenn skólabarnanna fengu bréf frá Hönnu í gærkvöldi þar sem þeim var greint frá málinu. Þar kemur hins vegar ekki fram að um 12 ára barn hafi verið að ræða, heldur að lögreglan hafi verið kölluð til vegna skuggalegs manns á lóðinni.

„Ég fékk síðan engar frekari upplýsingar um málið en sendi foreldrum að sjálfsögðu tölvupóst um málið, því maður vissi ekki hvort þetta væri alvarlegt eða ekki,“ segir Hanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×