Innlent

Pólitísk samstaða um breytingar á frídögum

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Mynd t.h./Daníel
Björt framtíð hefur lagt fram frumvarp á Alþingi sem kveður á um breytingar á frídögum. Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir í samtali við fréttastofu, að félagið sé hlynnt því að færa stöku frídaga upp að helgunum. Það sé framleiðni- og nýtingaratriði sem sé bæði gott fyrir atvinnurekendur og launþegana þar sem út fáist betri vinnuvika sem og líklegast glaðari starfsmenn.

Varðandi fjölgun frídaga segir Almar að mögulega þurfi að skoða þessi mál í stærra samhengi. Fjölgun frídaga fylgi eðli málsins samkvæmt ákveðinn kostnaður fyrir atvinnurekendur. Þannig vill Almar að málið sé skoðað í víðara samhengi, eins og til dæmis að þjappa stökum vinnudögum á vorin í lengri frí. Hann segir félagið mjög hlynnt þessari umræðu en það þurfi að skoða málið út frá öllum hliðum.

Samkvæmt frumvarpinu verður gefið frí á föstudegi eftir uppstigningardag og sumardaginn fyrsta. Beri jóladag, annan í jólum, nýársdag eða 17. júní upp á frídag á að gefa aukafrídag næsta virka dag á eftir. Baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, yrði svo haldinn hátíðlegur fyrsta mánudaginn í maí.

Sérstakir frídagar eru mismargir eftir árum þar sem sumir þeirra lenda á helgum. Þeir geta verið á bilinu 9 til 13.

Í umræðum á Alþingi í gær sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að hún hefði heyrt efasemdir frá verslunarmönnum um að gefa frí  á föstudögum í stað uppstigningardags og sumardagsins fyrsta. Þannig teldu verslunarmenn betra að færa fimmtudagsfríin yfir á mánudaga, verslun væri minni á þeim degi en föstudegi og því meiri líkur á því að þeir fengju frí. Ragnheiður sagðist þó vera í megindráttum hlynnt frumvarpinu og hið sama sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×